Steingrímsfjörður er mestur fjarða í Strandasýslu, um 28 km langur og nær 7 km breiður yzt milli Drangsnes og Grindar. Hann gengur fyrst til vesturs en sveigir síðan til norðvesturs og mjókkar þá mjög, innsti hluti hans sveigir síðan aftur til vesturs. Að firðinum eru lág og ávöl fjöll beggna vegna og undirlendi nokkurt, einkum með suðurströndinni.
Surtarbrandur og steingerð blaðför finnast víða. Frá suðurströndinni og botni fjarðarins ganga margir dalir. Helztir þeirra eru Heydalur, Miðdalur, Tungudalur, Arkötludalur, Ósdalur, Staðardalur og Selárdalur. Falla um á ár og hafa laxaseiði verið látin í sumar þeirra með góðum árangri
Mikil byggð er við Steingrímsfjörð sunnanverðan og margt myndarbýla. Þar er kauptúnið Hólmavík. Við innan- og norðanverðan fjörðin eru mörg eyðibýli en þéttbýliskjarni á Drangsnesi að norðan.
Norðurströndin nefnist Selströnd. Þar er lítið undirlendi og landið stöllótt upp á Bjarnarfjarðarháls. Undan ströndinni eru varphólmar og sker og Grímsey, þar sem ströndin sveigir til norð-norðausturs. Plöntusteingervingar hafa fundizt í Torfufelli og víðar. Jarðhiti er talsverður utarlega á ströndinni, þar sem heitir m.a. Reykjardalur, Hveravík og Hverá. Þar var byggð sundlaug, sem er ekki lengur í notkun. Bassastaðir eru innisti bærinn á ströndinni. Þar er stór steinn, sem er kallaður Selkollusteinn.
Saga Guðmundar biskups góða segir frá ógiftum hjúum, sem voru á leið með barn sitt til skírnar að Stað. Þau lögðu barnið niður við steininn, sem þá hét Miklisteinn, og fóru afsíðis til ástarleiks. Að honum loknum ætluðu þau að sækja barnið, sem var þá orðið að hræðilegri ófreskju í konulíki með selshaus. Þau flýðu til bæja og sögðu farir sínar ekki sléttar. Þessi ófreskja, Selkolla, spratt víða upp úr jörðinni á alfaraleiðum og misþyrmdi fólki eða drap það. Guðmundi biskupi góða tókst að koma henni fyrir með messusöng, vígðu vatni og krossum.