Forna nafn kirkjustaðarins og stórbýlisins var Breiðabólsstaður. Líklega hefur þar verið prestsetur frá kristni. Nafnið Staðarstaður er notað í nokkrum skjölum Skólholtsstóls á 16. öld. Kirkjan var fyrrum helguð heilagri guðsmóður og öllum heilögum.
Guðmundur biskup góði ferðaðist margoft norður Strandir í kringum aldamótin 1200 og dvaldi oft á Stað, þar sem hann átti ættingja og vini.
Staður var lengi vel eitthvert eftirsóttasta brauð landsins. Jón Árnason (1665-1743), síðar biskup í Skálholti, fékk embætti þar 1708 eftir langa sókn. Hann var prestur þar í 15 ár og skrifaði mikið (Fingrarím 1739). Hann var merkismaður, vel að sér í guðfræði, stærðfræði, rúmfræði og söng. Hann var meðal stjórnsömustu biskupa landsins og fór það vel úr hendi. Mörgum þótti nóg um og guldu honum lítinn kristilegan kærleik.
Séra Sigurður Gíslason (1798-1874) var annar merkisprestur, sem sat staðinn í 30 ár. Hann lét byggja núverandi kirkju árið 1855 og fimm bursta bæ, sem dugði fram á 20. öld.
Torfkirkja stóð á Stað fram undir miðja 19. öld og núverandi timburkirkja var reist á rústum hennar. Þar með er hún þriðja elzta hús Stranda, því kirkjurnar í Kaldrananesi og Árnesi eru eldri. Vigdís Finnbogadóttir stofnaði sjóð til endurbóta kirkjunnar, sem var gerð upp, eftir að hún kom í heimsókn 1981. Viðgerðum lauk 1990 og kirkjan var endurvígð. Þess var gætt, að endurreisnin væri í upphaflegum stíl, nema turninn, sem var byggður síðar, hélt sér. Kirkjugarðurinn var stækkaður og ný girðing var reist.
Predikunarstóllinn var gjöf frá séra Halldóri Einarssyni, presti (1724-1738) og konu hans Sigríði Jónsdóttur. Aðrir merkir gripir kirkjunnar eru gamlar klukkur, önnur með ártalinu 1602, 18. aldar silfurkaleikur og 18. aldar altaristafla. Sigurður Þorsteinsson smíðaði kaleikinn. Skírnarskál úr messing er með ártalinu 1487, sem séra Hjalti Jónsson, prófastur (1798-1827) gaf.
Í fjallinu ofan Staðar er Steingrímshaugur, þar sem landnámsmaðurinn Steingrímur trölli er sagður vera heygður með djásni sínu. Þar sést vítt og breitt um landnám hans. Gegnt Stað er fornt eyðibýli, Hofsstaðir, þar sem var líklega hof í heiðnum sið, og enn sést móa fyrir rústum þess. Öll byggð er í eyði innan Staðar nú, en fyrr á 20. öld voru þar fimm bæir í byggð, flestir kirkjuhjáleigur.
Árið 1942, þegar séra Ingólfur Ástmarsson fékk brauðið, fann hann mannabein ofanjarðar á Birgisholti nálægt bænum. Að sögn heimamanna höfðu þau legið þar lengi. Sagan segir, að þar hafi tveir smalar verið dysjaðir eftir að þeir bönuðu hvor öðrum.