Staðarhraunskirkja er í Staðarstaðarprestakalli í Snæfellsnes- og Dalaprófastsdæmi. Staðarhraun er bær, kirkjustaður og prestssetur til 1970. Eftir það var kirkjunni þjónað frá Söðulholti, þar til Staðarstaður tók við. Kirkjustaðurinn er nú í eyði en samnefnt nýbýli var reist undir hraunjaðrinum nokkru sunnar. Katólskar kirkjur á staðnum voru helgaðar Maríu guðsmóður.
Kirkjan, sem nú stendur, var byggð 1954. Hún er úr steinsteypu með forkirkju og turni. Hún var byggð utan um gömlu timburkirkjuna. Barbara Árnason málaði altaristöfluna 1957. Meðal fornra gripa kirkjunnar er kertahjálmur, altarisstjakar og klukka. Þessir munir voru allir fluttir frá Hítardal, þegar kirkjan þar var aflögð 1884. Staðarhrauns- og Hítardalsprestaköll voru sameinuð 1875. Klukkan ber nafn Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal.