Sólheimajökull skríður niður úr Mýrdalsjökli suðvestanverðum. Hann er u.þ.b. 8 km langur og 1-2 km breiður. Jökulsá á Sólheimasandi, stundum kölluð Fúlakvísl vegna brennisteinsfnyks, kemur undan honum. Síðast hljóp jökullinn fram á tíunda áratugunum og gægðist upp fyrir Jökulhaus, en hann hefur gengið mikið fram á síðustu öldum.
Jökulhaus hvarf í kringum 1820 en fór að koma í ljós aftur eftir 1930. Lengst náði jökullinn fram í upphafi 19. aldar eins og jökugarðar niðri á sandinum sýna glöggt. Mest hopaði jökullinn 1930-64 (u.þ.b. 900 m). Fyrrum stíflaði jökullinn þverdali og þar mynduðust jökullón. Stærst var lónið í Jökulsárgili á milli Hvítmögu og Skógarfjalls og hlaup voru tíð. Þau voru hættuleg ferðamönnum og stóðu stundum í marga daga.
Gönguleiðin frá bílastæðinu í grennd við jökulinn liggur um jökulöldurnar fyrir framan jökultunguna. Gæta þarf varúðar næst jöklinum, því þar myndast stundum kviksandur, sem fólk gegur sokkið djúpt í.
Fjallaleiðsögumenn hafa boðið ferðir upp á skriðjökulinn og búa þátttakendur öllum nauðsynlegum búnaði öðrum en fatnaði.
Gæta þarf fyllstu varúðar fari fólk inn í íshella, sem myndast stundum í jaðrinum, því þar er stöðug hætta á hruni. Ísinn er á stöðugri hreyfingu!