Smáeyjar eru fjórar eyjar vestan Heimaeyjar. Syðst er Hæna, þá Hani (hæstur: 97 m), Hrauney og
Grasleysa. Sundið milli Smáeyja og Heimaeyjar er greiðfær bátum. Kafhellir í Hænu er talinn fallegasti hellir úteyjanna. Kvöldsólin slær fögrum litbrigðum inn í hann. Gjarnan er siglt inn í hann, þegar kyrrt er í sjó og lágsjávað. Dýpi í hellinum er mikið og birtu bregður inn um lítið op neðansjávar að norðanverðu.
Sögð er saga af manni, sem féll útbyrðis af bát sinum og sogaðist í gegnum þetta gat inn í hellinn. Þegar hann kom úr kafinu í hellinum, var bátur hans kominn þangað, svo að hann gat kraflað sig um borð aftur. Í stórbrimi hafa gróðurflesjur á eyjunum skolast burt.