Mela- og Skuggabjargaskógur er meðal stærstu og mestu birkiskóga landsins. Þar er birkið síst lakara en í hinum gömlu „höfuðskógum Íslands“, Hallormsstaðaskógi, Vaglaskógi og Bæjarstaðaskógi.
Vegfarendur á leið milli Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslu sem vilja njóta landslagsins og ekki eru á hraðferð geta farið Grenivíkurveg út með Eyjafirði að austan, fram hjá Laufási og um Dalsmynni yfir í Fnjóskadal. Þar handan við Fnjóská blasir við frá þjóðveginum á alllöngum kafla einn af stórskógum Íslands, Mela- og Skuggabjargaskógur.