Skriðdalur nær frá Völlum á Héraði að Breiðdalsheiði og Öxi í suðri. Þar sem hann er breiðastur, klofnar hann um Þingmúlann í Norður- og Suðurdal. Skriðuvatn er í Suðurdal og afrennsli þess er Múlaá, en Geitdalsá fellur úr Norðurdal, sem hét Geitdalur áður. Þegar árnar hafa sameinazt er Grímsá komin til skjalanna. Grímsárvirkjun er í landi Stóra-Sandfells. Þingmúli er kirkjustaður sveitarinnar, en þar var áður hinn forni þingstaður, sem Múlaþing heitir eftir. Núverandi þingstaður sveitarinnar er að Arnhólsstöðum, gegnt Múlastað, en þar er samkomuhúsið. Þjóðvegur #1 liggur um Suðurdal til Breiðdals.
Árið 1995 fannst fornmannsgröf rétt sunnan Þórisár í Skriðdal, spölkorn ofan við þjóðveginn. Þetta reyndist eitthvert merkasta kuml frá landnámsöld, sem fundizt hefur hér á landi. Ríkur höfðingi hefur veið heygður þar ásamt hesti sínum, vopnum og skartgripum. Grautarskál, sem fannst meðal munanna, vakti mikla athygli. Hún varð til þess, að sumir eigna kumlið landnámsmanninum Graut-Atla. Aðrir gizka á Ævar hinn forna. Kumlinu var komið fyrir með upphaflegum ummerkjum í Minjasafni Austurlands á Egilsstöðum.