Skagfjörðsskáli er á sléttri grund, skammt frá Krossá, í mynni Langadals í Þórsmörk. Leiðin þangað frá hringveginum liggur um margar óbrúaðar ár og þörf er gætni, þegar ekið er um vöðin. Meðal áhugaverðra staða á leiðinni er Stakkholtsgjá, Hvanngjá o.fl. Rétt vestan skálans er Valahnúkur, sem fæstir standast og flestir klífa. Stórendi, Stangarháls, Hamraskógar, Húsadalur, Tindafjöll, Básar, Tindfjallajökull, gosstöðvarnar (Móði og Magni) uppi á Fimmvörðuhálsi og Eyjafjallajökull eru í næsta nágrenni og þangað leggja margir leið sína. Þarna er einnig upphafs- eða endastaður margra á leiðinni um „Laugaveginn” til eða frá Landmannalaugum með viðkomu í skálum Ferðafélags Íslands í Botnum, við Álftavatn og á Hrafntinnuskeri.
Skálinn er jarðhæð með rúmgóðu anddyri, tveimur eldhúsum, stórum matsal og tveimur svefnstofum og ris með svefnrými í kojum. Alls hýsir Skagfjörðsskáli 75 manns í kojum. Auk skálans er sérhúst með góðri hreinlætisaðstöðu (vatnssalerni og sturtur), viðdvalarhús fyrir daggesti, lítill svefnskáli fyrir 2-4 og verzlunarhús. Öll nauðsynleg áhöld er að finna í eldhúsunum.
GPS staðsetning: 63°40.960 19°30.890.
Upplýsingar frá fi.is