Síðumúlakirkja er í Reykholtsprestakalli í Borgarfjarðarprófastsdæmi. Síðumúli er bær og kirkjustaður í Hvítársíðu. Núverandi kirkja var byggð 1926. Hún er steinsteypt. Kirkjusmiður var Auðunn sigurðsson frá Akranesi. Altari, gráður og prédikunarstóll er úr eldri kirkjum. Altaristaflan sýnir Krist með börnunum með íslenzkt landslag að baki. Þetta er eftirmynd, gerð af Eyjólfi Eyfells, listmálara.
Krosslaga skírnarsár úr graníti á marmarastöpli eftir Jóhannes Eyfells prýðir kirkjuna. Fornar róðuleifar, mynd af Maríu guðsmóður úr steini og Barbörumyndir á útskornum altaristöflum úr eldri kirkjum í Reykholti og Síðumúla eru varðveittar í Þjóðminjasafni. Katólskar kirkjur á staðnum voru helgaðar Maríu guðsmóður. Síðumúlakirkja var fyrrum útkirkja frá Gilsbakka og frá Reykholti síðan 1907.