Hellir í stórum kletti bakvið gamla bæjarstæðið að Seljalandi er í röð merkra þjóðminja. Hann er alsettur krossmörkum og alls konar ristum, allt frá miðöldum. Opið upp úr honum er líklega manngert. Fram um aldamótin 1900 var viðarþil fyrir hellismunnanum og hann var notaður sem skemma.
Stúka er smáhellir vestan aðalhellisins, þar sem rými var fyrir tvo hesta. Eina breytingin, sem gerð hefur verið í hellunum, er sjálfbrynning í Stúku, en þangað var veitt vatni. Austan við stóra hellinn er hellisgapi og þunnur bergveggur með stóru opi á milli. Í gapanum eru hlaðnir kampar að framan með dyrum í miðju. Breiður planki var lagður þvert fyrir í hæð við kampana og borð frá eystri kampanum yfir á hann og yfir voru þvottasnúrur.
Austar í túninu er Þrasahellir, þar sem lömb voru geymd frostaveturinn 1882. Norðan í Seljalandsmúla er Kverkarhellir, sem er manngerður. Þar þinguðu Vestur-Eyfellingar á árunum 1872-1895 og á veturna var þar góð geymsla fyrir sauðfé, enda hellirinn þurr.