Sel er lítill torfbær af sunnlenskri gerð, reistur af Þorsteini Guðmundssyni bónda árið 1912 og er ágætt sýnishorn af bæjum eins og þeir gerðust í Öræfasveit fram á þriðja áratug tuttugustu aldar. Í bænum er fjósbaðstofa á lofti þar sem menn nýttu sér ylinn frá kúnum frá fjósinu sem er undir baðstofunni. Samtengd hús eru stofa og útieldhús. Skammt frá bænum eru stórar hlöður með afar fornu byggingarlagi, þar sem þakið er svokallað þríása með einn þakás eftir mæni og sinn ásinn hvorum megin við hann og eru þeir bornir uppi af innstöfum. Raftar ganga frá mæni og niður á veggi, en þakhella er þar á ofan og torf efst.
Síðustu ábúendur í Selinu fluttu úr bænum árið 1946, og lagðist hann þá í eyði. Selið hefur verið í vörslu Þjóðminjasafns Íslands frá árinu 1972, og hefur bærinn verið endurbyggður á þess vegum.