Húsagerð Íslendinga til forna bar svip af því efni sem tiltækt var á hverjum stað á hverjum tíma. Í Álftaveri og Meðallandi vex mikið af melgresi, og er vestara sauðahúsið í Álftaveri dæmi um nýtingu þess til húsagerðar. Þar er melur notaður á svipaðan hátt og hrís í árefti annarra þekktra torfhúsa. Melur var gjarnan lagður í þremur lögum á húsþök. Neðsta lagið var lagt upp og ofan eftir þekjunni og melknippin látin skarast. Næsta lag var lagt þvert ofan á og það efsta lá eins og það neðsta. Efst var torfþekja. Grind eldra hússins hefur einnig þá sérstöðu að þak sperrur hvíla á steinum sem ganga út úr grjótveggjunum í sylluhæð.
Skammt frá sauðahúsunum er rúst fornbýlisins Kúabótar, og þegar unnið var að uppgreftri þar árið 1972, varð mönnum ljóst að notkun mels í húsþök væri staðbundin og nauðsynlegt að varðveita dæmi um hús slíkrar gerðar. Húsin hafa verið í umsjá Þjóðminjasafns síðan 1974 og ráðist var í endurbyggingu þeirra árið 1976.