RIO de JANEIRO
BRASILÍA
Rio de Janeiro er í suðausturhluta landsins við Atlantshafsströndina. Hún er næststærsta borg landsins, höfuðborg samnefnds fylkis og aðalmiðstöð menningar og ferðaþjónustu. Portúgalska nafn borgarinnar þýðir Janúarborg. Líklega er það dregið af komu landkönnuðarins Concalo Coelho, sem var þarna á ferðinni í janúarmánuði snemma á sextándu öld. Nafn borgarinnar er gjarnan stytt í Rio. Fjalllendið umhverfis borgina er eins og náttúruleg landamæri, sem skilja hana frá öðrum landshlutum. Einn fjallgarðanna heitir Serra da Mantigueira.
Rio var höfuðborg landsins á árunum 1763-1960, en þá tók Brasilía við því hlutverki. Sao Paulo skaut Rio aftur fyrir sig á viðskiptasviðinu en hún heldur enn þá hlutverki sínu sem aðalferðamannastaður landsins. Íbúar þessarar þéttsetnu borgar eru gjarnan kallaðir Cariocas eftir tónlistinni og dansinum, sem er afbrigði af samba. Skóglendið á borgarsvæðinu, stórkostleg fjöllin umhverfis og fagrar baðstrendur gera Rio að einhverri fegurstu borg heimsins.
Rio er líka mikilvæg hafnarborg, steinsnar frá aðalsiglingaleiðum meðfram ströndinni og öðrum aðaliðnaðarsvæðum landsins. Um tveggja alda skeið var hún mikilvægasta umskipunarhöfn landsins. Samgöngur milli Rio og annarra landshluta eru velskipulagðar með góðu þjóðvegakerfi, járnbrautum og loftleiðis. Iðnaður og þjónusta eru einnig mikilvægar atvinnugreinar. Framleiðsla iðnaðarvara er u.þ.b. 10% heildarframleiðslu landsins. Þar ber hæst matvæli, efnavörur, lyf, málmvörur, skipasmíði, vefnaðarvörur, fatnað og húsgögn. Þjónustugeirinn er mikilvægastur og nær til fjármálastarfsemi, hins opinbera og ferðaþjónustunnar. Sífellt fleiri ferðamenn laðast til borgarinnar til að taka þátt í kjötkveðjuhátíðunum.
Borgarmyndin. Lega borgarinnar við fjallsrætur á ströndinni á sér engan líkan í heiminum. Þar byggðu Portúgalar fyrst virki og verzlunarstað. Síðan hefur byggðin færzt út um allt láglendið. Aðalviðskiptagöturnar eru Avenida rio Branco og Avenida Prensidente Vargas. Þar er fjöldi hárra skrifstofubygginga og oftast eru þær hálfstíflaðar af umferð bíla og fótgangandi. Aðaliðnaðarhverfin eru norðar, þar sem umhverfið er ekki eins fallegt. Þar eru líka íbúðarhverfi. Fátækrahverfin eru einkum uppi í fjallahlíðunum. Sunnantil eru fallegu íbúðahverfin í grennd við strendurnar Copacabana, Ipanema og Leblon. Nýleg jarðgöng og brýr undir og yfir Buanabara-flóa til Niterói hafa greitt talsvert úr umferðaröngþveitinu.
„Sykurtoppurinn”, á tanga út í Guanabara-flóann, er meðal kunnustu kennimerkja borgarinnar auk stóru Kriststyttunnar uppi á Corcovado-fjalli. Fjöldi gamalla kirkna og annarra nýlenduhúsa stinga verulega í stúf við nútímabyggingar, sem hafa sprottið upp síðan 1950. Meðal vinsælla útivistarsvæða eru eyjarnar á Guanabara-flóanaum og fjallaskörð Tujuca-skógarins.
Mennta- og menningarstofnanir. Aðalháskólarnir í Rio er Sambandrískisháskólinn (1920), Fylkisháskólinn (1950) og Páfaháskólinn (1941). Þjóðskjalasafnið og Þjóðarbókhlaðan eru áhugaverð. Meðal fjölda vinsælla safna er Þjóðlistasafnið. Nýlistarsafnið, Þjóðminjasafnið og Indíánasafnið eru heimsóknar verð.
Sagan. Fyrstu portúgölsku landkönnuðirnir komu á Rioslóðir í kringum 1503 og rúmum 50 árum síðar komu franskir landnemar sér fyrir þar. Þá bjuggu Tupi-indíánar á svæðinu. Portúgalar ráku Frakkana á brott árið 1567 og fámenn byggð hélzt þar fram á 18. öld, þegar vegur var lagður til gullnámanna í Minas Gerais-fylki. Þá komst Rio á kortið sem miðstöð samgangna og borgin blómstraði. Vegur hennar jókst enn, þegar hún tók við höfuðborgarhlutverkinu af Salvador í Bahia-fylki árið 1863. Á árunum 1808-21 bjó hin útlæga, portúgalska konungsfjölskylda í borginni. Árið 1822 varð hún höfuðborg hins sjálfstæða keisararíkis Brasilíu og árið 1889 lýðveldisins Brasilíu. Þróun iðnaðar og viðskipta eftir síðari heimsstyrjöldina olli miklum flutningum vinnuafls úr dreifbýlinu til Rio. Áætlaður íbúafjöldi árið 1993 var rúmlega 5,5 milljónir.