Garðar í Reynishverfi er syðsta býli á íslandi. Vestan þess er eyðibýðið Hellur, þar sem eru nokkrir hellar í móbergsklöppunum. Einn þeirra er Baðstofuhellir, þar sem séra Jón Steingrímsson, síðar eldklerkur, bjó fyrsta veturinn, sem hann var prestur í Mýrdalnum. Sagt er, að þar hafi hann lagt stund á þýzkunám.
Landnámsjörðin í Reynishverfi er Reynir. Þar var prestssetur í Reynisþingum og útkirkja að Höfðabrekku. Reynis- og Sólheimaþing voru sameinuð í Mýrdalsþing, sem heitir nú Víkurprestakall. Árið 1929 var ákveðið að byggja kirkju í Vík og prestssetrið var flutt þangað 1932. Reyniskirkja stendur nú nokkuð frá staðnum en í gamla kirkjugarðinum hvílir m.a. Sveinn Pálsson læknir. Talsverð útgerð var frá Reynishöfn. Félagsheimilið Eyrarland er á Reyni.
Skammt sunnan Garða, í suðvestanverðu Reynisfjalli, eru hellisskútar og fallegar stuðlabergsmyndanir. Þangað er þó ekki fært, þegar hásjávað er og sjávarrót. Reynisdrangar blasa við úr fjörunni (Black Beach). Hinn hæsti þeirra er 66 m hár og Eldeyjar-Hjalti er sagður hafa klifið hann manna fyrstur. Mikil hrunhætta er úr fjallinu og víða má sjá merki hruns, nýlegast Víkurmegin.
Þjóðsagan segir frá tveimur tröllum, sem ætluðu að draga þrímastraða skútu fyrir Reynisfjall en þau og skipið dagaði uppi, þar sem drangarnir eru.
Reynisfjall er 340 m hátt. Það er móbergshöfði með blágrýtisbeltum og gengur í sjó fram milli Reynishverfis og Víkur í Mýrdal. Uppi á fjallinu var byggð lóranstöð, sem var starfrækt um tíma og hernámsliðið lagði brattasta fjallveg á landinu upp fjallið vestanvert og síðan austanvert.
Reynisdrangar eru allt að 66 m háir drangar í sjónum sunnan Reynisfjalls og blasa við báðum megin fjalls.