Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Reykja og Fagraneskirkja

Á Reykjum á Reykjaströnd var komin kirkja stuttu eftir kristnitöku, því heimildir segja að þar hafi Illugi og Grettir verið jarðsettir eftir að þeir voru drepnir í Drangey. Talið er að það hafi verið um 1028 sem þeir bræður settust að í Drangey og voru þeir búnir að dvelja í eyjunni í þrjú ár þegar Þorbjörn öngull og hans menn komu út í eyjuna og unnu á þeim bræðrum.

Um Reykjakirkju er fátt eitt vitað, hvorki stærð né eignir og engir máldagar eru til frá hennar tíð, enda virðist hún varla hafa verið við lýði nema tæp 200 ár. Í staðinn var byggð kirkja í Fagranesi og bein þeirra Illuga og Grettis grafin upp og flutt þangað. Segir að mönnum hafi við flutninginn, þótt stórmannleg bein Grettis.

Um upphaf Fagranesskirkju eru nákvæmar heimildir, því að í Sturlungu segir frá því, þegar Oddur Þórarinsson, sem þá bjó í Geldingaholti, var í Skagafirði til að gæta eigna og ríkis Gissurar jarls Þorvaldssonar á meðan jarlinn fór utan að reyna að ná sættum við Hákon Noregskonung. Oddur frétti að Heinrekur Hólabiskup væri staddur í Fagranesi að vígja þar kirkju. Það var 11. september árið 1254. Heinrekur biskup hafði bannfært Odd nokkrum dögum áður og vildi Oddur hitta hann og friðmælast við hann en það fór nú allt á annan veg eins og fram kemur í sögu Geldingaholtskirkju.

Í máldaga Auðuns rauða frá 1318 er sagt, að Fagraneskirkja sé helguð Guði og heilögum Mattheusi. Tákn hans eru bók og fjöðurstafur, eða pyngja sem minnir á að áður var hann var tollheimtumaðurinn Leví Alfeusson.

Eignaskrá kirkjunnar frá þeim tíma er ekki löng, en þó eru upptalin messuklæði, krossar, klukkur og glóðarker. Eftirtektarvert er að kirkjan á þá einn glerglugga. Í Fagranesi átti að vera heimilisprestur og kirkjan fékk lýsistoll og heytoll af 14 bæjum.

Í máldaga Jóns biskups skalla frá 1360, hefur eignaskrá kirkjunnar heldur lengst og kirkjunni bætzt Maríulíkneski, Nikulásarlíkneski, Benediktusarlíkneski og altaristafla.

Máldagi er einnig til frá Pétri Nikulássyni biskupi frá 1394. Þar er upptalningin svipuð og áður að því undanskildu, að glugginn er sagður brotinn, kaleikurinn laskaður, tvær klukkur brotnar og sú þriðja kólflaus og glóðarkerið orðið vont.

Síðasti máldagi fyrir siðaskipti er frá Ólafi Rögnvaldssyni biskupi frá árinu 1495. Þá hafði kirkjunni bætzt líkneski af Guðmundi góða en ekki er minnst á glugga. Tekið fram að presturinn muni gera við kirkjuna, eða eins og segir í máldaganum, að það þurfi að láta gera við gólf í kirkjunni, þilja hana innan og setja hlífðarhurð á. Eitt er merkilegt við þessa máldaga. Enginn þeirra getur þess, að kirkjan eigi bakstursjárn en í flestum öðrum máldögum eiga kirkjur alltaf bakstursjárn og oft fleiri en eitt, enda þurfti að baka brauð fyrir altarisgöngurnar, sem voru í hverri messu í kaþólskum sið.

Kirkja stóð í Fagranesi fram til ársins 1892 en þá var lokið byggingu Suðárkrókskirkju og Fagraneskirkja var lögð niður.

Myndasafn

Í grennd

Sauðárkrókur
Sauðárkrókur er kaupstaður innst í Skagafirði vestanverðum. Þar er blómleg útgerð og fiskvinnsla og öflug þjónusta við nágrannasveitir. Ferðaþjónusta …
Sögustaðir Norðurland
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Ábæjarkirkja Aðaldalur Akureyrarflugvöllur Akureyri Innbærinn Árbæjarkirkja Skaga…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )