Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Rauðhöfði

Í fyrndinni fóru menn til Geirfuglaskerja að afla fugls og fiðurs. Þó fóru þeir aldrei til skerja þeirra er lengst lágu burt því þar bjuggu vættir er engum létu afturkvæmt.
Um hausttíma fór skip eitt út til skerjanna og týndist. Leið svo allur veturinn að einkis varð vart af skipinu, en um vorið kom einn skipverja er Árni hét heim til sín aftur. Var hann kvæntur maður og átti börn. Hann var heldur fálátur og sagði ekki frá ferðum sínum né hvernig hann komst af.

Um sumarið nokkuð seint var Árni við messu með öðrum mönnum; en undir þjónustugjörðinni kom kona inn í kirkjuna, tíguglega búin, og setti vöggu með barni í á kirkjugólfið með rauðri ábreiðu yfir og hvarf síðan.

Presturinn gekk þá út og benti Árna að koma út með sér. Spurði hann þá Árna hvort hann vissi ekki hvernig á barninu stæði eða hvort hann legði ekki til það væri skírt, en hann kvað nei við.

Prestur mælti: „Gættu vel að orðum þínum, Árni, að þú segir ekki það sem þig kann að iðra eða er móti samvisku þinni. En sjálfum þér má vera það kunnugast við hverja þú hafðir mök meðan þú varst öllum horfinn.“

En Árni stóð við hin fyrri orð sín.

Prestur gekk þá aftur inn á kirkjugólfið og mælti: „Er hér enginn við staddur í þessum söfnuði sem leggur það til að barn þetta sé skírt?“

Þegar enginn gaf sig fram sagði prestur aftur eftir nokkra þögn: „Óskar enginn þess að barnið sé skírt og þú ekki heldur, Árni?“

Hann kvað skýrt nei við því.

Þá kom konan aftur í ljós og kastaði hinu rauða klæði af vöggunni inn á kirkjugólfið og mælti: „Þetta skal kirkjan eiga til minningar um hvort nokkurt óhræsi hefur átt hér í hlut.“ Var klæðið dýrindis hökull.

Síðan greip hún vögguna reiðugleg mjög og mælti: „Þér, prestur, get ég ekkert gjört, því þú leystir hendur þínar með skylduverk þitt, en þú Árni veist til hvers þú hefur unnið og skalt þú verða versti fiskur í sjónum og granda skipum og mönnum og aldrei komast úr þeim ánauðum, og jafnan skal einhver ógæfumaður vera meðal niðja þinna, allt í átjánda lið.“

Síðan hvarf konan með vögguna. Árni stóð fyrir kirkjudyrum og hafði rauða húfu á höfði. Tók hann þegar að þrútna og tryllast og beljaði ógurlega. Menn hlupu þá á hann og ætluðu að binda hann, en hann sleit sig af þeim og hljóp skemmstu leið að sjó fram og steyptist í hann fyrir björg fram.

Gjörðist hann þar illhveli mikið og lagðist fram og aftur milli lands og Geirfuglaskerja. Hafði hann rautt höfuð. Gjörðist hann mjög skæður skipum og er mælt að kraftaskáld nokkurt hafi kveðið hann upp í Hvalvatn, og þykjast menn hafa séð þar hvalsbein sem mannsbein í lagi.

Mælt er að Einar á Iðu sem var dæmdur til lífláts fyrir barneign í meinum væri kominn af Árna í níunda lið, en nú er komið í hinn tólfta.

Heimild: Snerpa.is

Myndasafn

Í grennd

Eldey
Eldey er 77 m hár, þverhníptur, 0,03 km² klettur u.þ.b. 15 km sunnan Reykjaness. Hún er úr móbergi og   er innsta skerið á grynningum, sem ná u.þ.b. 8…
Geirfuglasker
Geirfuglasker er lítið sker skammt frá Reykjanesi. Eins og nafnið bendir til var skerið nytjað til veiða á geirfugli. Geirfuglabyggðin í skerinu var a…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )