Fyrsti verzlunarstaður Austur-Skaftafellssýslu var á Papósi við Papafjörð. Þar var verzlað á árunum 1861- 97 þangað til verzlun hófst á Höfn. Næstu tvö árin var rekinn unglingaskóli með heimavist á staðnum. Þessi gamli verzlunarstaður stendur við Papafjörð, sem gengur inn úr Lónsvík. Ósinn var fær litlum skipum og skjólgóð lega, þegar inn fyrir var komið. Rústir húsanna á staðnum eru áberandi enn þá og eitt húsanna, sem eftir stóð, var flutt til Hafnar, þar sem það hýsir byggðasafnið.
Sunnan gamla verzlunarstaðarins eru svokallaðar Papatættur, sem sagðar eru vera frá tíma írsku einsetumannanna, sem bjuggu á landinu fram yfir upphaf landnáms norrænna manna.