Yzti hluti þessarar snarbröttu hlíðar milli Hnífsdals og Bolungarvíkur er kallaður Óshyrna og neðan hennar eru Óshólar, sem eru vitastæði.
Sagt er, að stór klettur í hlíðinni austanverðri sé Þuríður sundafyllir, landnámskona, sem varð þar að steini. Neðan dalskoranna Kálfadals og Seljadals var útræði fyrrum. Vegur var lagður um Óshlíð 1950 og þótti stórvirki. Síðan hafa verið byggðir vegskálar og reistar netgirðingar, þar sem mest hætta er á hruni en samt líður varla ár án einhverra óhappa.
Þarna var fyrrum gönguleið, sem var ekki síður hættuleg fólki vegna hruns og snjóflóða. Við Sporhamar og Hald varð göngufólkið að handstyrkja sig áfram. Steinkrossinn við veginn er hjá Haldi og á honum stendur: „Góður Guð verndi vegfarendur”. Ósvör er endurbyggð verbúð í Óshólum, sem er til sýnis gestum og gangandi gegn gjaldi.
Göng milli Hnífsdals og Bolungarvíkur voru opnuð 15 júlí 2010.