Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Neðra Áskirkja

Fyrstu heimildir um kirkju í Skagafirði er í Kristnisögu. þar segir, að Þorvarður Spak-Böðvarsson hafi látið gera kirkju á bæ sínum Ási í Hjaltadal. Þorvarður var sonarsonur Öndótts, sem nam land í Viðvík og bjó þar. Hafi sú kirkja verið reist sextán vetrum áður en kristni var lögtekin á Íslandi, það var það árið 984. Segir að Þorvarður hafi fengið viðinn í kirkjuna frá Englandi og hann fékk prest til að þjóna henni.

Enginn þeirra manna, sem námu land í Skagafirði voru sagðir kristnir. Hinn fyrsti, sem boðaði kristni í þar, var sonarsonur landnámsmanns þar. Sá var Þorvaldur víðförli frá Stóru-Giljá og með honum í för var Friðrik biskup af Saxlandi. Þeir hófu trúboð sitt í Húnaþingi og varð vel ágengt. Hjá þeim skírðust höfðingjar úr öllum þingum Norðurlands og þar á meðal Þorvarður bóndi í Ási.

Kirkjuskipan virðist hafa mótazt þannig frá upphafi kristni, að á stærri bújörðunum voru reistar kirkjur, sem önnuðust messugjörðir og greftranir fyrir þá jörð og smábýlin, sem virðast hafa fylgt stærri búum auk jarða og kota, sem lágu næst höfuðbólinu.

Sagan segir, að heiðnir menn í Skagafirði hafi ekki verið hrifnir af þessu framtaki Þorvarðar. Þeir tóku sig tveir saman, Klaufi og Arngeir bróðir Þorvarðar. Þeir hugðust fara að Ási og drepa prestinn en hættu við það af ótta við grimmilega hefnd Þorvarðar. Þá reyndu þeir í tvígang að brenna kirkjuna. Í fyrra skiptið sýndist þeim sem eldur fyki út um alla glugga á kirkjunni, er þeir komu í kirkjugarðinn, svo þeir snéru frá. Í seinna skiptið brutu þeir upp kirkjuna og kveiktu eld í þurrum fjalldrapa inni í henni. Það gekk illa að fá fjalldrapann til að loga svo Arngeir lagðist niður til að blása í eldinn. Þá kom ör fljúgandi yfir höfuð honum og önnur milli skyrtunnar og síðu hans. Þá urðu þeir hræddir og flúðu og eru ekki fleiri frásagnir um tilraunir þeirra til að eyðileggja kirkjuna.

Engir máldagar eru til frá kirkjunni í Neðra-Ási og því er ekkert vitað hverjum hún var helguð eða hvaða eignir hún átti. Fyrstu máldagar sem til eru um kirkjur í Skagafirði eru frá því er Auðunn rauði var biskup á Hólum árin 1313 – 1322. Um stærð kirknanna í Ási og aldur er nú meira vitað en nokkurra annarra kirkna frá sama tíma hérlendis.

Sumarið 1998 var hafinn uppgröftur í Neðra-Ási, sem lauk sumarið 1999. Munnmæli höfðu fylgt ákveðnum fjárhúsum í Neðra-Ási, sem voru alltaf kölluð „bænhúsið”, því voru fjárhúsin rifin og uppgröftur hafinn á þessum stað.

Við uppgröftinn kom í ljós, að í Neðra- Ási hefðu staðið þrjár kirkjur. Hin elzta líklega timburkirkja frá því um árið 1000 (eða 984!).

Á seinni hluta 11. aldar var líklega byggð önnur timburkirkja og utan um hana var lítilfjörlegur torfveggur. Hugsanlega var honum bætt við nokkru eftir að kirkjan var reist.

Þriðja og yngsta kirkjan var líklega byggð í byrjun 12. aldar. Hún stóð hugsanlega óbreytt fram undir lok 13. aldar en varð þá eldi að bráð. Kirkjurnar voru byggðar á sama grunni og stærð þeirra var svipuð, um 12 m². Breidd þeirra var svipuð og innamál Víðimýrarkirkju er nú, en hún er um það bil 4 m lengri en kirkjurnar í Ási hafa verið.

Kirkjugarðurinn í kringum kirkjuna var líka grafinn upp. Þar komu í ljós u.þ.b. 100 grafir. Greftrunum virðist hafa verið hætt um 1100, því grafirnar lágu undir gjóskulaginu sem Hekla lagði yfir landið árið 1104. Menn gera sér í hugarlund að orsökin fyrir að greftrun var hætt um 1100 í kirkjugarðinum í Ási, sé tengd stofnun biskupsseturs á Hólum. Einnig kann fólki hafa fundizt fínna og meira öryggi í að liggja í Hólakirkjugarði.

Myndasafn

Í grennd

Kirkjur á Íslandi
Það er erfitt að draga skörp landfræðileg skil milli kirkna, kirkjustaða og sögu kristninnar á milli. Á þessum vef fer skiptingin ekki eftir prófastsd…
Sögustaðir Norðurland
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Ábæjarkirkja Aðaldalur Akureyrarflugvöllur Akureyri Innbærinn Árbæjarkirkja Skaga…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )