Mývatn er 36,5 km². Það er í 277 m.y.s., mjög vogskorið og með rúmlega 40 eyjum og hólmum. Mesta náttúrulegt dýpi er 4,5 m og víða er mun grynnra. Mun dýpra er orðið, þar sem kísilþörungum hefur verið dælt úr vatninu. Silungsveiði er meiri í Mývatni en nokkru öðru vatni landsins og fiskarnir geta orðið allt að 20 pund.
Veiði er stunduð í net frá öllum bæjum við vatnið og á veturna er dorgað í gegnum ís. Ekkert vatn í heiminum er þekktara fyrir fuglalíf en Mývatn. Vatnið er á landssvæði, sem er í regnskugga Vatnajökuls, þannig að þar er tiltölulega þurrt og hlýtt á sumrin og úrkomulítið og kalt á veturna. Sáralítil stangaveiði er í vatninu.