Mógilsá er við botn Kollafjarðar. Þar var kalknáma í Esjunni og kalkið var brennt í ofnum, sem var fyrir við Arnarhól og gatan þar síðar skírð Kalkofnsvegur. Í kalknámunni og næsta nágrenni fannst líka smávottur af gulli.
Skógrækt ríkisins eignaðist Mógilsá og kom þar upp rannsóknarstöð 1967. Þar starfar forstöðumaður, sem jafnframt er sérfræðingur, sjö sérfræðingar, fulltrúi, ræktunarstjóri og aðstoðarfólk. Rannsóknir fara fram að hluta á Mógilsá, þar sem m.a. er fullbúin gróðrarstöð og tilraunastofa, en annars eru tilraunareitir dreifðir víðs vegar um landið. Gróðrarstöðin á Mógilsá er notuð til að framleiða tilraunaplöntur og fyrir tilraunir í frærækt. Helstu verkefnasvið rannsókna á Mógilsá eru: kvæma- og klónatilraunir, kynbætur og frærækt, vistfræði birkiskóga, ræktunartækni, skordýr og aðrir skaðvaldar, vefjarækt og athuganir á skógræktarskilyrðum.
Fiskeldisstöð ríkisins er í næsta nágrenni við Mógilsá. Hún var stofnuð 1961 á jörðinni Kollafirði og þar var stundað seiðaeldi til sleppingar víða um land, kynbótatilraunir og hafbeit.
Margt göngufólk, sem ætlar að sigrast á Esjunni, leggur gjarnan af stað í fjallgönguna frá Mógilsá en ágætur uppgöngustaður er einnig frá Esjubergi.