Sumarið 2003, 17. júlí, var afhjúpaður minningarskjöldur um tvo brezka námsmenn, Ian Harrison og Tony Porser, sem týndust á Öræfajökli 1953.
Félagi þeirra í leiðangrinum, dr. Jack D. Ives afhjúpaði skjöldinn. Þeir voru meðal brezkra leiðangursmanna, sem stunduðu rannsóknir á Morsárjökli. Þeir lögðu í göngu á Öræfajökul til að sigra hæsta tind landsins og safna sýnum í leiðinni. Óveður skall á þá á leiðinni og þeir hafa ekki fundizt fram á þennan dag.