Meðalfellsvatn er í Kjós. Áin Bugða fellur úr því í Laxá, þannig að lax gengur upp í það. Báðar eru góðar veiðiár. Vatnið er 2,03 km². Mesta dýpt þess er 18,5 m en yfirleitt ekki dýpra en 2-5 m. Strandlengja þess er 6 km löng. Yfirborð vatnsins er í 46 m hæð yfir sjó. Í vatninu veiðist bleikja og urriði og lax, þegar líða tekur á sumarið. Fjöldi sumarbústaða er við vatnið. Veiðimenn róma þetta svæði fyrir fegurð og friðsæld.
Fyrrum þótti fiskur mjög smár í vatninu og það benti til að það væri ofsetið. Í nokkur ár var það því grisjað með netum með þeim árangri, að fiskur varð vænni. Fiskur er nú yfirleitt af boðlegri stærð og sérstaklega getur urriðinn orðið vel vænn, eða allt að 4-5 pund þó þorrinn sé smærri, eða 1-2 pund.
Bleikjan er mikið beggja vegna pundsins, en stærri og smærri veiðast í bland. Mest hafa rétt yfir 100 laxar veiðst í vatninu á einu sumri og allt ofan í 10 stykki. Margir telja þó að mun fleiri veiðist heldur en skýrslur segja, því margir, sem veiða frá sumarbústöðunum gefa ekki upp nákvæmar aflaskýrslur.
Veiðitími hefst kl. 7.00 og honum lýkur kl. 22.00
Frá byrjun 1. apríl og fram til 20. september.
Allt löglegt agn: Fluga, maðkur og spónn.
Fishing card only costs 9.900 ISK.
Vegalengdin frá Reykjavík er u.þ.b. 40 km.