Laxamýri er við austanverða Laxá og ósa hennar, nyrzt í Reykjahverfi. Rétt við bæinn eru ármót Mýrarkvíslar og Laxár í Aðaldal. Tungan á milli ánna kallast Heiðarendi Hvammsheiðar. Jörðin telst til mestu laxveiðijarða landsins og þarna hefur löngum verið stórbýli.
Jóhann Sigurjónsson (1880-1919), skáld fæddist að Laxamýri. Hann bjó að mestu í Danmörku og notaði bæði tungumálin til að rita verk sín. Kunnustu leikrit hans eru „Fjalla-Eyvindur” (1912) og „Galdra-Loftur” (1915). Hann er einnig kunnur fyrir ljóð sín. Minnisvarði hans við Laxamýri var afhjúpaður á aldarafmæli skáldsins.
Æðarfossar eru norðvestan Laxamýrar og vegur liggur frá bænum að Ærvíkurbjargi í Laxamýrarleiti. Þaðan er fagurt útsýni í góðu veðri.