Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Langavatn á Mýrum

Langavatn á Mýrum

Langavatn í Mýrasýslu er allstórt stöðuvatn í sunnanverðum Langavatnsdal í 215 m hæð yfir sjó. Það er   u.þ.b. 5,1 km² og mesta dýpi er 36 m. Vatnið varð til við hraunstíflun dalsins. Við suðausturenda þess er gangnamannakofi. Langadalsvatnsá fellur í vatnið að norðan en Beilá að suðaustan og Langá, ein bezta laxáin á Mýrum, er afrennsli þess. Við útfallið er stífla til miðlunar vegna laxræktar í ánni og vatnakerfi hennar.

Mikið er af frekar smárri bleikju í vatninu, um og innan við pund og ein mun stærri, sem tekið hefur upp á því að lifa á meðbræðrum og systrum. Fiskifræðingar telja, að ekki veiti af að grisja vatnið, en það sé erfitt viðureignar.

Urriði er einnig til í vatninu og eru til gamlar tröllasögur um risafiska, m.a. einn, sem dró bát fram og til baka um vatnið í meira en hálftíma áður en hann sleit og annan, sem var 22 punda, en í maga hans fundust sjö hálfvaxnir toppandarungar. Urriði veiðist annars helst nærri ósum Beilár og Langavatnsdalsár, sem falla í vatnið og bjóða urriðanum hrygningarsvæði. Vinsælt fjölskylduvatn vegna fiskauðgi og mikillar náttúrufegurðar.

Vegalengdin frá Reykjavík er u.þ.b. 90 km 13 km frá Svignaskarði.

Veiðikortið:

Staðsetning:
Langavatn á Mýrum liggur í sunnanverðum Langadal í Mýrasýslu, norðaustur af Grímsstaðamúla.

Leiðarlýsing og fjarlægð frá Reykjavík og næsta bæjarfélagi.
Leiðin að Langavatni liggur eftir þjóðvegi nr. 1 um Borgarnes að Svignaskarði. Þar er ekinn 13 km. langur afleggjari, jafnan fólksbílafær, á vinstri hönd, upp með Gljúfurá. Þá er einnig fært að vatninu eftir leið upp með Langá.

Upplýsingar um vatnið:
Langavatn er um 5,1 km2 að flatarmáli og hefur 36 metra dýpi, þegar mest er. Það liggur 215 metra yfir sjávarmáli í fallegu umhverfi. Þangað rennur Langavatnsá að norðan, en Beilá að austan. Úr suðvesturhorni þess fellur hin kunna Langá til suðurs. Langavatn hefur verið notað til vatnsmiðlunar og því getur yfirborðshæð þess verið nokkuð breytileg. Helstu veiðistaðir eru austarlega í vatninu við hólma, sem eru fram undan leitarmannakofa við vatnið. Góðir veiðistaðir eru einnig við útfall Langár.

Veiðisvæðið:
Veiða má í vatninu öllu.

Gisting:
Korthafar Veiðikortsins geta tjaldað endurgjaldlaust við vatnið, en enga hreinlætisaðstöðu er þar að finna.

Veiði:
Í vatninu veiðist bæði bleikja og urriði, bæði litlir og stórir fiskar. Netaveiði er bönnuð fyrir handhafa Veiðikortsins.

Daglegur veiðitími:
Leyfilegt er að veiða frá kl. 7 til kl. 24.

Tímabil:
Veiðitímabil hefst 15. júní og lýkur því 20. september.

Agn:
Allt löglegt agn: Fluga, maðkur og spónn.

Besti veiðitíminn:
Best er að veiða í Langavatni fyrri hluta sumars.

Reglur:
Veiðmenn skulu hafa Veiðikortið á sér til að sýna veiðiverði þegar hann vitjar veiðimanna. Veiðimenn eru einnig vinsamlegast beðnir um að fylla út Veiðiskýrslu á vefnum og senda okkur með tölvupósti.

Myndasafn

Í grennd

Borgarnes
Borgarnes Borgarnes og nokkur sveitarfélög í Mýrarsýslu sameinuðust fyrir nokkru undir nafninu Borgarbyggð. Borgarnes er í landi Borgar á Mýrum og hé…
Veiði Vesturland
Stangveiði á Vesturlandi. Hér er listi yfir flestar laxveiðiár og silungsár og -vötn. Laxveiði Vesturlandi …
Veiðikortið
Kaupa Veiðikortið

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )