Landhelgisgæsla Íslands annast löggæslu og eftirlit á hafinu umhverfis Ísland og ber ábyrgð á yfirstjórn vegna leitar og björgunar á sjó. Landhelgisgæslan ber ábyrgð á eftirliti, lög- og öryggisgæslu á svæði sem nær yfir 752.000 ferkílómetra og leit og björgun á svæði sem þekur um 1,9 milljónir ferkílómetra, nær tvöfalt stærra en efnahagslögsaga Íslands.
Leitar og björgunarsvæði Íslands nær fyrst og fremst yfir íslensku efnahagslögsöguna en samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, ICAO, og Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar, IMO, er Ísland ábyrgt fyrir leit og björgun á svæði sem er talsvert stærra. Þá sinnir Landhelgisgæslan einnig verkefnum á landi í samstarfi við lögreglu og önnur yfirvöld.
Nýtt og fullkomið varðskip, Þór, bættist í flota Landhelgisgæslunnar árið 2011 og tveimur árum áður ný björgunar- og eftirlitsflugvél, TF-SIF sem er afar vel búin til eftirlits- og björgunarstarfa. Landhelgisgæslan ræður yfir þremur björgunarþyrlum og aðstoðar einnig við björgun og sjúkraflutninga á landi. Stefna stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum ríkisins frá 2015 kveður á um að efla skuli landhelgis- og öryggisgæslu á hafinu við Ísland, ásamt leitar- og björgunarþjónustu. Landhelgisgæslan tekur þátt í margvíslegu alþjóðlegu samstarfi, ekki síst á norðurslóðum.
Landhelgisgæslan sinnir einnig sjómælingum, sjókortagerð og sprengjueyðingu. Þá sér stofnunin um rekstur fjarskipta og ratsjárstöðva og hefur umsjón með öryggissvæðum og eignum NATO hér á landi.