Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Landakotskirkja

Landakotskirkja

Dómkirkja Krists konungs, Landakoti

Stjórnarskrá Íslands kveður á um trúfrelsi þegnanna, þótt löngum væri þjóðkirkjan kennd við Lúterstrú.  Allir söfnuðir, sem starfa á landinu verða að vera skráðir og hafa ábyrgan forstöðumann gagnvart ríkisvaldinu hjá kirkjumálaráðuneytinu. Hér á landi eru skráðir allmargir trúflokkar og söfnuðir utan þjóðkirkjunnar, bæði kristnir og aðrir. Rómversk-katólskum hefur fjölgað hægt og bítandi frá aldamótunum 1900, en Íslendingar voru allir katólskir eftir kristintökuna árið 1000 fram til siðaskipta árið 1550. Trúboð katólsku kirkjunnar hófst á ný um miðja 19. öld í smáum stíl. Montfort-prestareglan hefur annazt trúboðið frá aldamótunum 1900. Hún rak frá upphafi barnaskóla í Reykjavík og Landakotsspítalann, sem var vígður 1902. Systur af Jósepsreglu önnuðust rekstur hans fram á áttunda áratug aldarinnar. Katólska kirkjan rak St. Jósepsspítalann í Hafnarfirði og klaustursspítalann í Stykkishólmi (Fransiskur). Karmelsystur búa í klaustrinu í Hafnarfirði og til skamms tíma höfðust elztu systurnar við í Garðabæ að starfsævi lokinni. Frá upphafi til ársins 1923 var trúboðið undir erlendri stjórn, en þá var Ísland gert að postullegri prefektúru, sem stóð þar til 1968, en þá varð landið að sérstöku biskupsdæmi.

Landakotskirkja var byggð í gotneskum stíl og vígð 23. júlí 1929. Turn kirkjunnar var aldrei fullgerður. Vilhjálmur van Rossum, kardínáli og sérlegur sendimaður Píusar páfa XI, vígði hana og Guðjón Samúelsson teiknaði hana. Hún þykir brautryðjendaverk, því hún var byggð úr steinsteypu, sem var nýung í byggingu gotneskra mannvirkja. Hún er nú dómkirkja katólskra og auk hennar eru nokkrar kapellur í Reykjavík og annars staðar á landinu, þar sem katólskir búa. Kirkjan er helguð og eignuð Jesú Kristi, eilífum Guði og konungi, undir vernd alsællar Guðsmóður Maríu meyjar, hins helga Jósefs, hins heilaga Jóns Holabiskups Ögmundssonar og Þorláks helga Skálholtsbiskups. Nafn kirkjunnar, Dómkirkja Krists konungs, Landakoti, er til heiðurs Drottni allsherjar, Guð og manni, en sérstök hátíð Krists konungs var sett á stofn árið 1925 af Píusi XI. Kirkjuklukkurnar þrjár eru tileinkaðar Kristi konungi, heilagri Maríu og heilögum Jósef.

Píus páfi gaf til kirkjunnar nokkra fágæta muni og er tvo þeirra að sjá í kirkjunni. Yfir háaltarinu er stytta af Kristi, þar sem hann stendur á jarðarkringlunni. Þetta er frummyndin og er hún skorin út í sedrusvið. Ekki eru fleiri eintök til í heiminum, því listamaðurinn, Gampanya frá Barcelona, bannaði að afsteypa yrði gerð af henni. Þá er fremst í kirkjunni útskorin tafla, sem Píus páfi gaf kirkjunni árið 1936. Hún sýnir k´tólsku kirkjuna, hina almennu kirkju, kalla þjóðir heims saman og leiða þær, þar sem María mey heldur á syni sínum, Jesú, yfir hvolfþaki Péturskirkjunnar. Listaverkið var gert í borginni Bozen í Tíról og var sérstök gjöf til páfa, en í tíð hans efldist trúboðsstarf kirkjunnar.

Í hliðarganginum vinstra megin er stytta af Þorláki helga, verndardýrlingi Íslendinga. Styttan er gerð af ítölskum listamönnum, mauro og danilo Trisciuzzi, en fótstallurinn er útskurður Sveins Ólafssonar, myndskera. Hún var afhjúpuð og blessuð 20. júlí 1995 á Þorláksmessu á sumri, en þann dag árið 1198 voru líkamsleifar dýrlingsins lagðar í skrín í Skálholtskirkju. Skrínið var eyðilagt við siðaskiptin. Formleg staðfesting Páfagarðs á helgi Þorláks var gerð opinber 14. janúar 1984, þegar Jóhannes Páll II páfi lýsti því yfir , að Þorlákur helgi væri verndardýrlingur Íslands eða sérstakur árnaðarmaður þjóðarinnar hjá Guði.
Krossgöngumyndirnar, sem eru 14 að tölu, eru gjöf frá dr. Rudolf Graber, biskupi í Regensburg í Þýzkalandi, og voru þær settar upp og blessaðar á föstudaginn langa árið 1976. Myndirnar voru málaðar u.þ.b. einni öld áður í Bæjaralandi.

Þegar gengið er fram hjá altari heilagrar Guðsmóður, blasir við tréstytta af hinn helgu Móður með barn sitt, sem talin er vera frá 14. öld. Styttan var gefin til kirkjunnar árið 1926. Þegar Jóhannes Páll II páfi heimsótti Ísland 1989, blessaði hann kórónuna á höfði Maríu. Nokkru ofar er stytta heilagrar Teresu frá Lisieux (1873-97), þar sem hún heldur á róðukrossi og rósum. Þar er einnig heilagur Antóníus frá Padúa (1195-1231), kennifaðir, og heldur hann á opinni biblíu, sem Jesúbarnið stendur á og einnig heldur hann á lilju, sem er tákn hreinleika.
Hægra megin við kórinn er stytta af heilagri Jóhönnu frá Örk (1412-31), verndardýrlingi Frakka, og heilögum Louis Maria Grignion frá Montfort (1673-1716), sem stofnaði Montfortregluna.

Prestar af þeirri reglu sáu um trúboðið á Íslandi frá 1903 til 1968, þegar Ísland var formlega gert að biskupsdæmi. Við innganginn að skrúðhúsinu er sementslituð gipsmynd af Vilhjálmi van Rossum, kardínála, sem vígði kirkjuna og þar fyrir neðan er hvít marmaramynd af Jóhannesi skírara. Þar er einnig stytta af allra heigasta Hjarta Jesú, sem er tákn þess brennandi kærleika, sem Kristur ber til okkar. Krossinn og þyrnikórónan um hjartað er merki um fórnfýsi og þjáningar Jesú Krists í kærleika hans.

Öll þrjú ölturun voru í gömlu kirkjunni, sem var blessuð árið 1897. Róðukrossinn yfir fornaraltarinu er úr kapellu St. Jósefsspítala, landakoti, og er hann útskorinn af Ríkharði Jónssyni. Hann skar einnig út biskupsstólinn, en hann hefur verið í kirkjunni frá upphafi. Myndin gegnt altari heilagrar maríu Guðsmóður er af Lúkasi guðspjallamanni og ýmsum táknum, sem visa í skrif hans. Konur fá meira rúm í skrifum Lúkasar en hjá öðrum guðspjallamönnum og uxinn er tákn fórnarandans í guðspjalli hans. Myndin gegnt altari heilags Jósefs var í gömlu kirkjunni, en upplýsingar um hana vantar.

Brjóstmyndin fyrir utan kirkjuna er af Marteini Meulenberg, fyrsta katólska biskupinum eftir siðaskipti. Hann lét reisa Kristskirkju. Van Rossum, kardínáli, vígði hann á Íslandi 25. júlí 1929 með aðstoð Jósefs Brems, Hróaskeldubiskups og dr. Jóhannesar Müllers, biskups í Svíþjóð. Meulenberg biskup fetaði í fótspor Jóns Arasonar og var vígður til Hóla. Hann varð fyrstur manna til að öðlast íslenzkan ríkisborgararétt (1921) eftir að Ísland varð fullvalda ríki 1. desember 1918.

Aðrar katólskar kirkjur eru: Maríukirkja við Raufarsel í Reykjavík, Jósefskirkja í Hafnarfirði og Péturskirkja á Akureyri. Þá eru kapellur í klaustrunum í Stykkishólmi og í Hafnarfirðir auk kapellnanna í Keflavík og á Ísafirði.

Myndasafn

Í grennd

Kirkjur á Suðvesturlandi
Það er erfitt að draga skörp landfræðileg skil milli kirkna, kirkjustaða og sögu kristninnar á milli landshluta. Á þessum vef fer skiptingin ekki efti…
Klaustur á Íslandi
Heimildir um einsetulifnað á Íslandi fyrir kristnitökuna árið 1000 og áður en klaustur voru stofnuð, eru til. Meðal þeirra er frásögn af Ásólfi Konáls…
Sögustaðir Höfuðborgarsvæðinu
Ýmsir staðir tengdir sögu svæðisins Akurey Alþingishúsið Bessastaðakirkja Bessastaðir – Álftanes …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )