Kúluskítur er grænn, loðinn og hnöttóttur grænþörungur, sem lifir á þriggja metra dýpi í Mývatni. stafar af því að þessi gróður kemur oft í net bænda. Þeir kalla allan gróður, sem kemur í netin, skít. Þörungurinn heitir cladophora segagropila á fræðimáli, en síðari liðurinn vísar til fyrirbæris, sem nefnist mýll á íslenzku. Mýll er kúlulaga hárvöndull, sem myndast í maga kinda og hrossa. Því ætti að vera í lagi að nefna kúluskítinn vatnamýl. Fátítt er, að hann myndi stórar kúlur og það tekur nokkur ár. Mývatn er eina vatnið hér með slíkan stofn, en sums staðar eru þær í stórum flekkjum á botninum. Hver kúla virðist vera ein planta, sem vex út frá miðju. Kúlar er nokkurn veginn jafnþétt alla leiðina í gegn og fagurgræn að innan sem utan. Þörungurinn hefur enga festu við botninn. Líklegt er að kúlurnar velti um botninn í öldugangi, þegar stormar, og snúi því ekki alltaf sömu hliðinni upp.
Vatnamýll er kunnur víða um heim en hvergi algengur. Akanvatn á Hokkaídó í Japan er þó þekkt fyrir hann. Þar nefnist vatnamýllinn „marimo” og árlega kemur rúmlega hálf milljón ferðamanna í gestastofuna við vatnið til að sjá þörungana og fræðast um þá. Plönturnar eru stranglega friðaðar í Japan og árið 1921 voru þær viðurkenndar sem sérstök náttúrugersemi. Marimohátíð er haldin ár hvert til að stuðla að verndun þeirra, en tilveru þeirra hefur verið ógnað með skógarhöggi og byggingu orkuvera.
Vatnamýllinn á sér fleiri vaxtarform. Stór botnsvæði í Mývatni eru þakin teppi, sem myndað er af aragrúa lítilla hnoðra af þessari tegund. Hárfínir þörungaþræðir, sem hver um sig er aðeins ein fruma að þykkt, greinast út frá miðju og kvíslast þannig, að plantan myndar flókinn vef. Þessi vefur er kærkomið undirlag fyrir kísilþörunga, sem vaxa í miklum mæli í vatninu. Einnig safnast lífrænar setlagnir í þörungavefinn, en þær, ásamt kísilþörungunum, eru undirstöðufæða í vistkerfi Mývatns. Vatnamýllinn er því afarþýðingarmikill hlekkur í lífskeðjunni. Mikilvægi hans er þó ekki allt upptalið. Teppið, sem þörungurinn myndar er aðalbúsvæði vinsælla átutegunda í vatninu, en þar eru efstar á blaði vissar tegundir mýlirfna og krabbadýra. Einnig gegnir vatnamýllinn hlutverki í súrefnisbúskap vatnsins. Hann framleiðir mikið súrefni sjálfur, en einnig skapar þörungateppið búsvæði, sem lyftir dýrasamfélaginu ögn upp fyrir sjálfa botnleðjuna, þar sem stundum gætir súrefnisskorts. Loks má nefna, að vatnamýllinn, þ.e. hið smágerða vaxtarform hans, er eftirsótt fæða vatnafugla, einkum álfta og sumra andategunda á Mývatni, t.d. rauðhöfða- og dugganda.
Engar ritheimildir eru til um vatnamýl, en þörungafrumurnar hafa utan um sig endingargóðan hjúp, sem varðveitist öldum saman eftir að þörungurinn deyr. Leifar hans hafa fundizt í setlögum í Mývatni, jafnvel þeim, allt frá þeim tíma, er það myndaðist fyrir 2300 árum. Blómatími vatnamýlsins hófst á 16.-17. öld, og merki þess, að sumar vinsælustu átutegundir vatnsins færðust til muna í aukana á sama tíma. Nær fullvíst má telja, að hin mikla aukning vatnamýls á 16. og 17. öld tengist því, að vatnið hafi verið orðið nægilega grunnt. Mývatn grynnist 15-22 sm á öld, en birtuskilyrði á vatnsbotninum batna eftir því, sem vatnið grynnist. Meginhluti Mývatns er um 3 – 3,3 m djúpur og kjördýpi þörungsins er um 2 metrar. Því má ætla, að vatnamýllinn eigi nokkuð bjarta framtíð fyrir sér.
Heimildir
Árni Einarsson, Jón S. Ólafsson, Arnþór Garðarsson & Gerður Stefánsdóttir 1994. Cladophora í Syðriflóa Mývatns. Umhverfisráðuneytið, fjölrit. bls. 30.