Kröflustöð er jarðgufustöð sem nýtir blöndu af há- og lágþrýstigufu úr 18 vinnsluholum til að knýja tvo 30 MW hverfla. Stöðin í Kröflu var brautryðjendastarf og saga hennar einkennist um margt af því. Um hana stóðu pólitískar deilur árum saman og talsvert langan tíma tók að ná fullum afköstum.
Íslenska ríkið reisti stöðina en Landsvirkjun eignaðist stöðina árið 1985. Framkvæmdir hófust árið 1974 með tilraunaborunum en borun á vinnsluholum og bygging orkuvers hófust sumarið 1975. Fyrri vélasamstæða stöðvarinnar var gangsett í ágúst 1977 en vegna gufuskorts hófst vinnsla rafmagns ekki fyrr en í febrúar 1978.
Árið 1996 hófst uppsetning seinni vélasamstæðu stöðvarinnar. Nýjar holur voru boraðar, eldri holur lagfærðar og gufuöflun hefur gengið vel með endurbættri tækni, meðal annars stefnuborun.
Raforkuvinnsla með seinni vélasamstæðunni hófst í nóvember 1997 með hálfum afköstum en eftir að borun og endurbótum á gufuveitunni lauk 1999 hefur Kröflustöð starfað með tveimur vélasamstæðum og fullu 60 MW afli.