Nafnið á fjallinu, sem heitir Krafla, hefur teygzt út yfir háhitasvæðið suðvestan þess eftir tilkomu virkjunarinnar frá 1974. Leirhnjúkur er á syðsta hluta 40 km langs og allt að 15 km breiðs sprungubeltis, sem gaus níu sinnum á árunum 1975-1984 og kallast Gjástykki. Meðaldýpt borholna á Kröflusvæðinu er 2000 m. Þær eru fóðraðar niður á 700 – 1000 m dýpi.
Sjálfsuða gufuþrýstingsins frá gufuskiljunum í gráu byggingunni skilar 7,7 loftþyngdum til hverflanna í rauðu byggingunni og framleiðslugeta virkjunarinnar er u.þ.b. 60 MW. Virkjunin tengist byggðalínunni og Kísiliðjan er beintengd henni. Hún stendur í stórri öskju, sem er 20 km löng frá vestri til austurs og 8 km breið frá norðri til suðurs. Í upphafi Mývatnselda hinna fyrri 1724-1729 varð gígurinn Víti í hlíðum Kröflu til við sprengigos.
Vegna Mývatnselda II, sem hófust 1974, og jarðhræringa tengdum þeim, eyðilögðust allar borholur virkjunarinnar, þannig að ekki var hægt að taka hana í notkun fyrr en í janúar 1979 með fjórðungs til hálfum afköstum. Austan virkjunarinnar og sunnan Kröflufjalls er fjallshryggur, sem kallast Hrafntinnuhryggur. Svæðið býður upp á margar skemmtilegar og mislangar gönguferðir um ævintýralegt landslag, s.s. á Leirhnjúk, upp á Kröflu og Hrafntinnuhrygg, niður að Mývatni norðaustanverðu o.fl. leiðir.