Kollafjarðarneskirkja er í Hólmavíkurprestakalli í Húnavatnaprófastsdæmi. Kollafjarðarnes er og bær við norðanverðan Kollafjörð.
Árið 1907 voru Fells- og Tröllatungusóknir sameinaðar Kollafjarðarnesi, þar sem prestar sátu um árabil. Árið 1950 var þessi sókn lögð til Staðar í Steingrímsfirði og hefur verið þjónað frá Hólmavík síðan.
Núverandi kirkja í Kollafjarðarnesi var byggð úr steinsteypu og vígð 5. september 1909. Kaleikur og patina kirkjunnar eru frá 1711. Hún hefur ljóskross á stöpli og á allstóra altaristöflu (Kristur í grasagarðinum) eftir A. Dorph. Á austurvegg er tafla með kvöldmáltíðinni, máluð á tré og komin úr Fellskirkju. Á vængjum hennar eru áletranirnar H.Í.S. (Halldór Bjarnason, sýslumaður) og A.B.D. (Ástríður Bjarnadóttir). Hjónin gáfu Fellskirkju töfluna árið 1758.