Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Kjós – Mosárdalur

Þegar gengið er eftir litskrúðugum ríólítaurunum við rætur ríólíthlíðanna inn í botn Morsárdals, opnast hamrasalur Kjósarinnar á vinstri hönd. Kjósarlækurinn er duglegastur við að bera fram ríólítið ofan úr fjöllunum niður á aurana í veg fyrir Morsá, sem tekur við dreifingunni.

Fjallaramminn rís milli 600 og 1000 m yfir dalbotninn og Þumall (1279 m), vinsælt verkefni klettaklifrara, blasir við. Mörg gljúfur skerast inn í fjöllin umhverfis Kjósina og Morsárjökull eykur andstæður landslagsins. Hann er falljökull, sem skríður niður snarbratta hlíðina milli Miðfells (1430 m) og Skarðatinds (1385 m) og algengt er að sjá risavaxin ísstykki falla niður á neðsta hlutan hans með viðeigandi drunum. Morsá kemur undan honum og sameinast Skeiðará skammt frá aðalupptökum hennar.

Utan Kjósarinnar, Morsárdalsmegin, eru Rauðhellar, stórbrotin hamrahlíð með bergganga í allar áttir. Neðst í Morsárdal að vestanverðu eru skógarleifar, Hálsskógur og Bæjarstaðarskógur. Blómskrúð og birkigróður hefur dafnað vel og breiðzt út um aurana eftir að fjárbeit var hætt. Lúpínan, sem sáð var fyrir nokkrum áratugum, er dugleg við landnámið. Keilulaga fjall, Jökulfell (865 m), að mestu úr blágrýti, er við mynni Morsárdalsins að norðan og veitir Skeiðarárjökli viðnám við útfall Skeiðarár.

Neðst í fjallinu, yfir mynni Bláhnúkagils, sem skerst djúpt inn í fjöllin, eru heitar laugar. Gönguleiðin inn í Kjós liggur yfir Sjónarsker, niður Kambgil, yfir göngubrúna á Morsá eða meðfram ánni sunnanverðri. Göngutíminn er 10-12 klst báðar leiðir. Leiðin meðfram Skeiðará, norðan og neðan Skaftafellsheiðar er mun erfiðari yfirferðar og ekki með öllu hættulaus, því að stígnum hefur ekki verið haldið við.

Myndasafn

Í grennd

Sel í Skaftafelli
Sel er lítill torfbær af sunnlenskri gerð, reistur af Þorsteini Guðmundssyni bónda árið 1912 og er ágætt sýnishorn af bæjum eins og þeir gerðust í Öræ…
Þjóðgarðurinn í Skaftafelli
Þjóðgarðurinn í Skaftafelli (1967, stækkaður 1984 og stækkaður enn 2004) og nágrenni geymir mestu náttúruperlur Íslands. Íslenskir og erlendir ferðal…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )