Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Kjarnaskógur

Kjarnaskógur
Mynd: Kjarnaskógur www.ffa.is

Kjarnaskógur er hluti af skógarbelti, sem á að ná umhverfis Akureyri í framtíðinni og landið hefur verið í   eigu Akureyrarbæjar síðan 1910. Framan af var það grasnytjasvæði fyrir bæjarbúa en nú er það útivistarsvæði með Gróðrarstöð Skógræktarfélags Eyfirðinga. Göngustígar liggja vítt og breitt um það með áningar- og grillstöðum auk leiktækja. Fyrstu trén voru gróðursett í Kjarnalandi árið 1952. Þar ríkja birki og lerki, en fleiri tegundir er þar líka að finna. Villigróður er mjög fjölbreyttur og skráðar hafa verið 210 tegundir þar og á flæðunum fyrir neðan svæðið. Maríulykill og bláklukka eru meðal nokkurra fágætra tegunda, sem finnast þar.

Naustaborgir eru klettaborgir í löndum Hamra og Nausta, en um þær liggur göngustígur niður að veginum hjá Tjarnhólsmýri og þaðan eru leiðir yfir að Naustamýri. Brunná rennur ofan af Súlumýrum í gegnum Kjarnaland. Vestast í því er klettabelti. Syðst í því eru Lönguklettar, þá Arnarklettur og Krossklettur. Norðvestan Löngukletta er kílómetra langt klettabelti, Hamraklettar eða Hamrahamar. Þar er víða fjölbreyttur og fagur klettagróður. Súlumýrar liggja ú u.þ.b. 400-500 m.y.s., ofan við klettabeltið í Kjarnaskógi. Þar eru mýrar með smátjörnum, fífum, störum og öðrum mýrajurtum, s.s. gullinbrá. mýraberjalyng og litunarjafna eru meða fátíðra jurta þar. Fuglalíf er talsvert í Súlumýri.

Glerárdalur er vestan Súlumýrar. Sennilega dregur Glerá nafn af biksteini og hrafntinnu, sem hún ber fram. Hún hefur átt drjúgan þátt í mótun Akureyrarlands. Þarna er ríólítsvæði, sem gefur til kynna útbrunna megineldstöð frá tertíertíma, berghlaup og grjótjöklar og skriðjöklar eru innst í dalnum. Við botn hans er fjallið Kerling, hæsta fjall Norðurlands (1530m). Í gili Glerárdals verpa steindeplur, maríuerlur, snjótittlingar, smyrlar og hrafnar. Þar heitir líka Fálkaklettur. Gróður í gilinu er talsverður, s.s. umfeðmingur, geithvönn, blágresi, sóley og fífill. Þar eru líka víðirunnar og birki og sigurskúfur finnst í klettunum. Ofarlega í gilinu eru sjaldgæfar tegundir, s.s. rauðkollur og bjöllulyng. Þar má líka finna jarðarber, hrútaber og bláber. Glerá fellur í fossi niður þröngan stokk neðarlega í gilinu. Ofan við fossinn var byggð stífla í kringum 1920 og vatnið leitt í rörum að rafstöðvarhúsinu, sem stóð neðst í gilinu. Göngustígur frá dögum þessarar virkjunar liggur norðan með gilinu. Stíflan var endurbyggð en rafstöðin er horfin.

Fagrir huldufólksbústaðir eru í gilinu. Einkum eru ljósakrónur og veggljós fögur, en djúpir stólar, teppi á gólfum og myndir á veggjum eru líka eftirtektarverð. Margrét frá Öxnafelli mælti þessi orð og hélt áfram: „ Hef ég óvíða séð eins fögur híbýli hjá huldufólki. Þar heyrði ég einnig söng og hljóðfæraslátt. Ofan við gömlu rafstöðina okkar, þar sem kletturinn er hæstur, norðan við ána, er rafstöð huldufólksins. Hún var byggð á undan okkar rafstöð. Ég álít, að huldufólkið hafi notað rafmagn til ljósa löngu á undan okkur“. Neðsti hluti Glerárgils er með stöpum og bríkum. Undir einum stapanum í norðanverðu gilinu er hellisskúti. Kotárborgir eru suðaustan Glerárgils. Þær bera sömu merki um jökulskrið og Krossanesborgirnar. Á Gleráreyrum finnast litríkar bergtegundir úr fjöllunum í kring, ríólít, biksteinn, gabbró og blágrýti. Þar vaxa ýmsar melajurtir, s.s. eyrarrós.


Kort: Vefsetur Kjarnaskógar.

Myndasafn

Í grennd

Akureyri
Akureyri er stærsti kaupstaður landsins utan höfuðborgarsvæðisins. Þessi fallegi bær kúrir í fallegum  ramma innst í Eyjafirði vestanverðum og einhver…
Sögustaðir Norðurland
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Ábæjarkirkja Aðaldalur Akureyrarflugvöllur Akureyri Innbærinn Árbæjarkirkja Skaga…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )