Kaldrananeskirkja er í Hólmavíkur-prestakalli í Húnavatnsprófastsdæmi. Kaldrananes er bær og við Bjarnarfjörð syðri. Katólskar kirkjur þar voru helgaðar Maríu guðsmóður, Mikael erkiengli og Þorláki biskupi helga.
Kirkjan, sem nú stendur, var byggð árið 1851, og er næstelzta hús sýslunnar. Hún er úr járnvörðu timbri og árið 1888 var settur turn á hana og fleiri breytingar fóru fram til ársins 1892. Smíðað var nýtt altari og gráður, nýir gluggar settir í, sæti endurnýjuð og þilverkið að hluta. Prédikunarstóllin, sem er líklega frá 1787, fékk að halda sér, en var málaður í sama stíl og bekkir, altari og gráður um leið og öll kirkjan var máluð í fyrsta skipti. Þá var líka sett hvelfing í kirkjuna.
Árið 1970 fóru fram nokkrar endurbætur á kirkjunni. Hún var lengstum bændakirkja en söfnuðurinn eignaðist hana skömmu eftir 1950. Meðal góðra gripa kirkjunnar eru altaristafla, kaleikur og patina auk tveggja klukkna (önnur með ártalinu 1798). Síðustu endurbætur á kirkjunni voru unnar á árunum í kringum 2000 og nýr veggur hlaðinn umhverfis kirkjugarðinn.