Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Ódáðahraun Íslandsferð 1973

Glögt er gest auga !!!
ÍSLANDSFERÐ 1973
JOACHIM DORENBECK
Ódáðahraun

Innskot Birgir Sumarliðason flugstjóri og um tíma flugrekstarstjóri Vængja og umsjónarmaður nat.is.

Við vorum svo ánægðir með endurfundina, að við léttum ekki göngunni þann daginn fyrr en við vorum komnir að Svartárkoti. Þar sveigðum við til vinstri, fórum fram hjá bænum með stóru nýju fjárhúsi og héldum áfram á slóðinni upp með Suðurá.

Það var votlent með köflum, nokkrir grunnir pollar, sem við ösluðum í gegnum með galsa. Tvisvar urðum við að fara yfir girðingar og fundum í bæði skiptin staði, þar sem þær lágu niðri, ella hefðum við orðið að afferma og ferma kerruna. Í staðinn bárum við hana yfir gaddavírinn, svo að ekki spryngi dekk. Þessir smáútúrdúrar leiddu okkur í gegnum kjarrlendi, sem gerði kerrudráttinn erfiðari en hægði lítið á för okkar.

Samkvæmt kortinu átti að vera „kofi” einhvers staðar framundan. Við veltum því fyrir okkur hvers konar íverustaður „kofi” væri. Það væri gott að geta komizt hjá að tjalda eina nótt. Ég skimaði í kringum mig af og til með Zeisskíkinn fyrir augunum en kom ekki auga á neitt, sem líktist kofa. Ljósleitur, ferhyrndur blettur í fjarska, sem líktist vegg á einhvers konar mannvirki, reyndist vera lítill foss.

Klukkan tíu um kvöldið fundum við okkur skjólgóðan, grænan blett til að tjalda á. Áin rann hljóðlaust um forgarðinn okkar. Þar var varla hægt að merkja nokkra hreyfingu á vatninu. Það lá við að ég skaðbrenndi mig á tungunni við að borða sjóðheitan matinn á meðan ég dáðist að náttúrufegurðinni umhverfis okkur. Útihitinn þetta kvöld var +1½°C.

Þegar við vorum að taka saman dótið okkar næsta morgun, heyrðum við vélarhljóð. Landrover hlykkjaðist eftir slóðinni og hvarf hægt og rólega í áttina til Ódáðahrauns.

Skömmu eftir að við lögðum af stað fundum við kofann. Við glöddumst yfir því að hafa ekki fundið hann um kvöldið. Hann var að hruni kominn, bárujárnsþak á gluggalausri hraungrýtishleðslu. Í daufri birtunni innandyra sáum við leifar af rúmstæðum í ryk- og ruslahrúgu. Þetta hefði ekki komið okkur að gagni.

Við héldum áfram göngunni. Brátt kom Landroverinn aftur í ljós, kyrrstæður í fjarska. Við nálguðumst hann og áttum nokkur hundruð metra ófarna að honum, þegar hann fór að hreyfast aftur. Hann beygði til hægri yfir trébrú og hvarf á milli hraundranga. Þetta var síðasta lífsmarkið, sem við sáum næstu dagana. Við héldum okkur á slóðinni að upptökum árinnar, sem merkt eru með 4 – 5 m hárri vörðu, og héldum til suðausturs, inn í hraunið. Það var hraun allt í kringum okkur, bólstrahraun, reiphraun, apalhraun, helluhraun, hraun af öllum gerðum og stærðum. Fjöldinn allur af litlum vörðum lóðsaði okkur um krókótta slóðina og oft virtust þær vera í andstöðu við hverja aðra. Þegar þær bar við himinn, var oft erfitt að þekkja þær frá náttúrulegum hraunmyndunum.

Á landakortinu okkar, sem var með mælikvarðann 1:l00.000, var þessi leið sýnd sem bein lína, þannig að þessar stöðugu krókaleiðir settu upphaflegar tímaáætlanir okkar talsvert úr skorðum. Við reyndum samt að halda okkur eins og kostur var við slóðina, enda var erfitt og oft ómögulegt að sjá langt fram eftir henni í þessu öldótta landslagi. Það var heldur ekki fýsilegt fyrir okkur, alókunna þessari auðn, að fara beint af augum, missa þannig sjónar af einu áþreifanlegu vísbendingunum og auka erfiði okkar til allra muna.

Kerran hoppaði og skoppaði með braki og brestum, en stóðst álagið með mikilli prýði og varð mér ekki til vonbrigða. Byggingarlagið var byggt á ferhyrningi og var sterkbyggðara en venjuleg teningslaga farartæki. Bambus- og víravirkið var mjög sveigjanlegt og líktist eina helzt hjólabúnaði lítilla flugvéla frá því fyrir seinni heimsstyrjöldina. Kerran vó ekki nema 8 kg tóm og var einkum notuð undir léttari farangur, þegar farið var um torfærur en fékk að bera allan farangurinn, þar sem slétt og léttara var yfirferðar, sem var allvíða. Fyrsta daginn í hrauninu losnuðu bara tvær skrúfur og eitt stag. Ég var með nóg af varaskrúfum en bara eitt aukastag, þannig að dagleg skoðun og viðhald bættist á dagskrána, einkum til að koma í veg fyrir tjón.

Seint um kvöldið nálguðumst við stutta en bratta brekku. Jean, sem var kominn hálfa leiðina upp, stanzaði skyndilega, lagði frá sér byrði sína og settist niður. Ég hafði verið að velta fyrir mér, hvort betra væri að hvíla sig fyrir átökin við brekkuna eða á eftir. Ekki hafði ég gert upp hug minn, þegar ég brölti fram hjá Jean, og sagði honum, að ég mundi ekki stanza fyrr en upp væri komið. Með brekkuna að baki, staulaðist ég nokkra metra í viðbót á þrjóskunni einni saman. Ég varð að sanna fyrir sjálfum mér, hve harður nagli ég væri. Síðustu klukkustundina höfðum við verið að reka tærnar í stærstu steinana í slóðinni. Við vorum orðnir þreyttir.

Ég hrasaði einu sinni enn þá og jörðin kom þjótandi upp á móti mér, hægt fyrst, en jók hraðann. Sólin var lágt á himni, svo að hver steinn kastaði löngum skugga og virtist stærri en hann var. Passaðu á þér hnén, hugsaði ég og reyndi að bera fyrir mig hendurnar. Ég fann ekki til eins mikils sársauka og ég bjóst við, þegar hnén skullu á hraungrýtinu. Tuttugukílóa bakpokinn þrýsti á bak og herðar. Sem betur fer var ég með brjóstpoka, sem mýkti stuðið á brjóstkassann, þegar hann skall á jörðina. Mjaðmafestingin hélt bakpokanum í skefjum, svo að efsti og þyngsti hluti hans lenti ekki á hnakkanum á mér.

Fyrstu viðbrögðin eftir að ég var lentur og lá flatur á jörðinni, var mikill léttir. Þetta var dásamlegt, hugsaði ég. Hér ligg ég kyrr og slappa af. Ég færði brjóstpokann undir vinstri vangann og lét líða úr mér.

Jean gat ekki hafa séð hvað kom fyrir mig frá þeim þaðan, sem hann sat. Eftir nokkrar mínútur fór hann að undrast um mig og fór upp til að athuga málið. Fyrst sá hann kerruna og hélt, að ég hefði farið á bak við stein að pissa. Þá sá hann mig liggjandi hreyfingarlausan á jörðinni og hélt að eitthvað voðalegt hefði gerzt.

Hann stökk til mín, snéri mér við, losaði dráttarbeltið og tók af mér bakpokann. Ég sagði honum, að ég væri við beztu heilsu og hreyfði fæturna. Það blæddi að vísu svolítið úr vinstra hnénu í gegnum báðar buxurnar. Hægra hnéð og lófi voru líka skrámuð. Allt var klappað og klárt eftir að ég hafði gert að sárum mínum með sáravatni og plástri.

Við vorum heppnir. Ég hefði alveg eins getað brotið hnéskel dagleið frá næsta bæ. Þarna lærðum við aðra lexíu. Sem sagt: Ekki að þrjózkast áfram, ef þreytan er farin að segja til sín, einkum ekki í svona torfærum.

Klukkan var orðin tíu. Við höfðum ætlað að rölta áfram í klukkutíma í viðbót, en létum segjast og tjölduðum þar sem við vorum komnir.

Við brekkuræturnar framundan fundum við slétta sandflöt. Sandlagið var mjög þunnt, þannig að ekki var hægt að fá festu fyrir tjaldhælana. Við reyndum að festa þá sem bezt með hraungrýti, sem nóg var af. Sums staðar bundum við sandpoka við hælafestingarnar og fergðum þá með grjóti. Innri tjöldin festum við lauslega með grjóti og notuðum stærstu steinana til að halda stögunum niðri.

Nóttin var stillt.

Morguninn eftir slepptum við morgunverði til að spara vatn og ganga nokkra kílómetra áður en sólin yrði of heit.

Fyrst fórum við um eintómt gróft hraun, sem smám saman breyttist í flatar hrauntungur með öskufylltum lautum á milli. Hraunið hafði verið eldskírn fyrir kerruna en nú kom eldskírn dráttarklársins í lausum sandinum, þar sem hjólin sukku á bólakaf.

Kindasporin urðu strjálli og áður en þau hurfu að fullu fann ég skininn rollukjálka, sem ég stakk í vasann sem minjagrip.

Ódáðahraun var fyrrum hæli útilegumanna, sem drógu fram lífið með sauðaþjófnaði. Þeir hafa tæpast þurft að óttast eftirför manna á þessum slóðum, en hversu margir lifðu af fyrsta vetur sinn, þegar ískaldur norðanvindurinn tók völdin? Við vorum sammála um, að NASA hefði valið rétta landslagið fyrir geimfarana til að æfa sig í fyrir tunglferðina.

Í bókinni „Island – Impressionen einer heroischen Landschaft”, segir Sigurður Þórarinsson frá ungum Íslendingi, sem hafði dvalið áralangt erlendis. Hann kom heim og leit yfir hraunbreiðurnar ofan af hárri hæð og sagði: „Þvílíkur munur. Þetta er eitthvað annað en bannsettur gróðurinn í Danmörku!”

Þegar ég las þetta, leit ég á það sem grín. En eftir að hafa kynnzt Ódáðahrauni, fór ég að skilja, hve einlæg þessi fullyrðing var. Ég hafði hafði aldrei áður séð svona miskunnarlaust landslag, sem var samt þrungið óútskýranlegri fegurð. Þessi fegurð liggur ekki sízt í ótakmörkuðu útsýni, síbreytilegu ljósaspili dagsbirtunnar og skýjafari.

Þessi ský sigldu yfir himinhvolfið og vindurinn, sem stundum tók sér hvíld á kvöldin, minnti okkur stöðugt á, að auðnin var hluti af eyju nyrzt í Atlantshafinu.

Það vakti óskipta athygli okkar og undrun að finna plöntur í þessu harðbýla umhverfi. Einstaka víðikvistir þrjózkuðust við, þrátt fyrir vatnsleysi og, að því er virtist, án gróðurmoldar.

Oft gerðum við okkur ekki grein fyrir, hvort við værum á slóðinni eða ekki. Hjólförin hurfu víða í hrauninu og sandinum. Vindurinn var fljótur að eyða öllum merkjum um ferðir manna og dýra. Eitt sinn, er við stoppuðum, tók Jean kvikmyndir. Ég hélt af stað og var kominn langt á undan áður en hann hafði fest vélina á þrífótinn. Á hægri hönd var grunn sandfyllt lægð, umkringd hrauni, u.þ.b. 600 m löng. Lengra framundan til vinstri var lá svipuð lægð langt til suðurs. Það örlaði hvergi á neinu, sem minnti á slóð.

Ég kíkti athugulum augum í allar áttir í gegnum Zeissinn. Vindrastirnar í sandinum voru hér um bil eins alls staðar. Á hraunjaðrinum handan lægðarinnar framundan var steinhrúga, sem líktist vörðu. Ég horfði stíft og lengi á hana og komst að þeirri niðurstöðu, að þetta væri hraundrangur. Hægt og rólega færði ég sjónir til hægri og skoðaði umhverfið vel og vandlega. Þetta virtist vonlaust. Allt í einu kom eitthvað í sjónmál u.þ.b. 80 gráður til hægri frá síðustu stefnu okkar. Þetta voru tvær óljósar, samhliða sandrákir, sem lágu upp úr smátrogi inn á hraunið.

Jean var lagður af stað aftur en hann veitti mér ekki athygli. Ég reyndi að gera förin mín eins áberandi og hægt var, þegar ég snéri til hægri í áttina að sandrákunum. Þar var framhald slóðarinnar

Zeisskíkirinn ómissandi, 8 x 20 einglirni, var jólagjöf frá Ericu. „Hann getur komið sér vel við að finna leiðina yfir Ísland”, sagði hún, þegar ég tók utan af honum.

Þegar Jean hafði náð mér, tók ég mynd af útsýninu til baka með kerruna í forgrunni. Núna finnst mér langmest til þessarar myndar koma.

Hraunið varð stöðugt sandorpnara. Sandurinn varð brúnleitari og meira var um möl. Skyndilega heyrði ég þyt á hægri hönd og sá sandstrók dansa úr sér allan mátt, leysast upp og hverfa. Langt í burtu í suðvestri geisaði moldrok, sem sló gullroðinni slikju á ljósbláan himininn.

Vindurinn blés allkröftuglega úr norðri og ég komst ekki hjá því að hugsa um, að lítið segl á kerruna hefði komið að góðu gagni. Eitthvað í líkingu við seglin, sem heimskautafararnir notuðu á sleðana sína. Léttur nælonflugdreki hefði jafnvel þjónað okkur betur en segl. Kári hjálpaði samt til við að kæla okkur í bragandi sólskininu.

Þrátt fyrir það gekk hratt á vatnsbirgðir okkar. Þegar við skrúfuðum tappana af vatnsflöskunum okkar, heyrðist holur tónn í þeim. Við bjuggumst við að finna lækinn, sem við höfðum talað um við Gautlandabóndann, en það var erfitt að segja til um, hve langt væri í hann.

Drátturinn varð stöðugt þyngri í þurrum sandinum. Jean þrammaði áfram nokkur hundruð metrum á undan. Hann hafði nóg að bera og hefði tæpast getað bætt á sig drætti í viðbót. Ég hafði aðeins ein dráttartygi, þannig að hann hefði aðeins orðið til trafala. Stundum fannst mér sem einhver væri að toga á móti mér í kerruna. Þessi tilfinning varð svo raunveruleg, að ég stóðst ekki freistinguna að líta aftur til að gá að því, hvort ég væri í raun og veru aleinn.

Ég held, að mér hefði ekki brugðið mikið, þótt ég hefði komið auga á einhvern fyrir aftan mig. Þetta minnti mig á íslenzku draugasögurnar, sem ég hafði lesið og tengdust þreyttu fólki á ferðalögum og ofsjónum þess á sjó og landi. „Gættu þín, Dorenbeck“, sagði ég við sjálfan mig, „ef þú hættir ekki þessari vitleysu, missirðu þá litlu glóru, sem þú hefur, áður en þú veizt af.“

Með átaki snéri ég hugsunum mínum að jarðbundnari efnum og fór að raula fyrir munni mér skemmtilegt lag, sem ég lærði af veiðimönnum í Ardennafjöllum tveimur árum áður, þegar ég slóst í hópinn með þeim í árlegri gönguferð þeirra. Þetta var söngur, sem hæfði hvorki kirkjum né klaustrum, en var líkur því, sem fótgönguliðar í hvaða her sem er syngja til að stytta sér stundir á langri göngu.

Jean beið mín handan breiðrar og jafnrar sléttu sitjandi við rætur sandhóls. Þegar ég var kominn í kallfæri, spurði hann mig, hvort ég væri ekki blautur í fæturna.

„Komdu og seztu og líttu þangað”, sagði hann og benti á slóðina okkar.

Ég sá stórt stöðuvatn með hvítfyssandi öldum, sem brotnuðu á dökkri klettaströnd.

Þetta voru fyrstu hillingarnar, sem við sáum.

Askja, eða réttara sagt Dyngjufjöll, höfðu verið óralengi að færast nær, en nú virtumst við vera að nálgast mynni Dyngjufjalladals á milli þeirra og Dyngjufjalla ytri. Dalurinn opnaðist svo í suður, niður á sléttuna á milli Dyngjufjalla og Vatnajökuls. Á bak við okkur blöstu við Sellandafjall og Bláfjall. Dökkblá Herðubreið með flötum toppi og bröttum hlíðum var smám saman að hverfa bak við norðurhlíðar Dyngjufjalla. Herðubreið er sögð vera fegurst fjalla á Íslandi og við getum tekið undir það. Samkvæmt því, sem ég hafði lesið um fjallið fyrst verið klifið árið 1908, sama ár og Cook komst á Norðurpólinn og ári áður en Peary sagðist hafa komizt þangað.

Um kvöldið, þegar við áttum aðeins eftir einn lítra af vatni, komum við að læknum. Farvegur hans í stórgrýttu gili, var uppþornaður.

Við stóðum þarna ráðþrota og horfðum hvor á annan.

Allir vita, að menn verða að halda ró sinni við svona aðstæður. Bezt er að fá sér bolla af tei og hugsa málið, en til þess þarf vatn. Við horfðum upp og niður eftir gilinu og komum auga á sandborinn snjóskafl neðar meðfram farveginum í norðausturhlið sandöldu. Jean tók vatnsbrúsann og bauðst til að fara og athuga málið. Ég tók að mér að setjast niður og velta málinu fyrir mér á meðan. Eftir nokkrar sekúndur var ég steinsofnaður.

Þegar ég vaknaði, var Jean ekki kominn aftur. Ég sá hann á leiðinni til mín með fullan brúsann reiddan um öxl. Þetta var hankalaus, samanbrjótanlegur brúsi, sem Jean bar venjulega í plastpoka, þegar hann var fullur af vatni. Hann var líkastur gullfiskaskál í útliti og líkingin varð fullkomnari við að það var grófkornótt sandlag á botninum, sem myndaði skörp skil við tært vatnið.

Eins og svo oft áður, hafði tært loftið á Íslandi ruglað fjarlægðarmat okkar. Snjóskaflinn var mun fjær og var mun stærri en okkur sýndist. Engu að síður fórum við aðra ferð þangað með hina tvo brúsana okkar og fylltum þá. Snjórinn þiðnaði hratt. Vatnið streymdi niður úr skaflinum í mörgum smásprænum, sem hurfu næstum strax í sandinn.

Þarna losaði ég mig við hálfs lítra flösku úr riffluðu plasti, sem ég hafði notað til að hrista saman Vivanco púður og vatn. Hún hafði ekki þolað ferðalagið og var farin að leka. Ég stakk henni í sandkambinn, þannig að blái borðinn efst á henni blasti við. Hún átti að sýna næstu vegfarendum, að þeir væru ekki fjarri aðalleiðinni og vafalaust mundu þeir undrast hvern þann, sem áliti nauðsynlegt að flytja drykkjarvatn til Íslands, því að á henni stóð Spa Reine 1500. Vivanco duftið var sérstaklega ætlað íþróttamönnum, sem þurftu að beita ítrasta afli í stutta stund til að geta náð settu marki. Það er á allan hátt náttúrulegt efni og á ekkert skylt við eiturlyf eða stera. Við kölluðum það varastyrkinn okkar.

Við ákváðum að ganga áfram í tvo tíma enn þá. Vatnslítrarnir fimmtán þyngdu farangur okkar talsvert, svo að framsóknin gekk hægt. Gamli jökuldalsbotninn var næstum rennisléttur, að mestu þakinn mjúkum sandi með þunnu en þéttu lagi af vikri og öðru smágrýti. Helzt leit hann út eins og hann hefði verið hellulagður en á að stíga var hann eins og þykkt og mjúkt teppi. Þarna sáust greinileg hjólför, sem virtust vera a.m.k. ársgömul.

Þegar við höfðum gengið tæpa tvo tíma, hittum við árfarveginn fyrir aftur og þar rann fram kristaltært vatn. Við vorum afar þakklátir fyrir það og reistum tjöldin okkar á bakkanum. Kvöldið var kyrrt og fallegt. Sólin, sem var lágt á lofti, glóði á austuhlíðum dalsins. Það var stafalogn. Ég var sæll og glaður, þegar svefninn sigraði mig við notalegt hjal lækjarins.

Sunnudaginn 22. júlí var sólríkur. Nokkrir skýjahnoðrar voru á himni og vinds gætti lítið í dalnum. Tilfinningar okkar um afrek gærdagsins voru svolítið blendnar. Hann hafði verið mjög erfiður líkamlega en vegalengdin, sem við lögðum að baki var ekki til að hrósa sér af.

Dalurinn þrengdist stöðugt og við urðum að sækja á brattann yfir ójafnt og grýtt yfirborð. Það var erfitt að draga kerruna og við urðum að stanza oft til að kasta mæðinni. Þegar við fórum að sjá æ fleiri snjóskafla, helltum við mestu af vatninu okkar niður til að létta á okkur.

Í hvert skipti, sem við stóðum upp eftir hvíld, varð Jean að troðast í axlaólar þrjátíu kílóa bakpokans. Síðan var að standa upp og halda jafnvægi, sem var erfitt, þar eð bakpokinn náði honum langt yfir höfuð. Honum tókst það ekki í fyrstu atrennu og plastdýnan hans, sem bundin var efst, slóst alltaf í hausinn á honum. Ég hafði gaman af öllum þessum tilburðum og Jean skellihló stundum sjálfur. Það hjálpaði ekki til við verkið, því að hann tapaði þá einbeitingunni og varð að reyna aftur.

Í hvert skipti, sem okkur fannst þurfa að lífga upp á sálartetrin, hermdi annar hvor okkar eftir hrópunum í liðþjálfum og öskraði: „Eru ekki allir hressir?” og síðan æptum við báðir af öllum mætti: „Jú, herra.”

Snjóskaflarnir, sem teygðu sig niður hlíðar Dyngjufjalla, urðu stærri og stærri. Uppi á brúnum, langt fyrir ofan okkur stóðu þrír drangar eins og varðmenn, sem gættu dalsins. Inni í djúpu gljúfri sáum við hvíta rönd, sem reyndist vera foss, þegar betur var að gáð. Hann steyptist hvítfyssandi niður hlíðina án þess að við heyrðum nokkurt hljóð í honum og líktist helst hvítri marmarasúlu í algerri andstöðu við dökkt umhverfið.

Þennan dag fór Jean að finna fyrir óþægindum í hægra hnénu og við fórum að efast um, að það væri góð hugmynd að príla upp fjöllin til að fá yfirsýn yfir Öskju, jafnvel þótt við skildum megnið af farangrinum eftir niðri í dalnum.

Við fórum yfir grunnan læk og nokkur hundruð metra langa krapablá, sem var aðeins tíu metra breið, þar sem við fórum yfir. Hinum megin handlönguðum við byrðar okkar upp bratta sandbrekku. Við vorum komnin suður úr dalnum.

Við fjallsræturnar til vinstri stóð stór klettur umkringdur stórum snjóskafli, sem hafði bráðnað frá honum, svo að þar virtist skjólgott og upplagt tjaldstæði. Þegar betur var að gáð var yfirborðið þakið hnefastórum steinum, svo að við tjölduðum við uppþornaðan lækjarfarveg í staðinn.

Einu merkin um líf, sem við sáum þennan dag, voru spor eftir lágfótu og einhvers konar köngulló á tjalddúknum.

Tólf kílómetrar voru lagðir að baki á átta tímum og við vorum þremur dögum á eftir áætlun.

Gaumlisti fyrir göngufólk

Myndasafn

Í grennd

Hálendið, ferðast og fræðast
Þegar talað er um (Hálendið) miðhálendið, er yfirleitt miðað við landsvæði ofan 400 m hæðar yfir sjó. Þetta svæði nær yfir u.þ.b. 76% af flatarmáli la…
Íslandsferð 1973 Joachim Dorenbeck
Íslandsferð 1973 Joachim Dorenbeck Eftirfarandi frásögn lýsir sumarleyfi á Íslandi. Hún hófst sem stutt skýrsla til vina minna John Fish og Tosse Lun…
Ódáðahraun
Ódáðahraun er stærsta samfellda hraunbreiða landsins. Mörk þess eru Vatnajökull og Vonarskarð að     sunnan, Skjálfandafljót að vestan, Jökulsá á Fjöl…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )