Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Ingjaldshólskirkja

Ingjaldshóll

Ingjaldshólskirkja er í Ingjaldshólsprestakalli í Snæfells- og Dalaprófastsdæmi. Þar er kirkustaður og   kirkja sem var byggð 1903 og er elsta seinsteypta kirkja heims. Íbúðarhúsið í Sveinatungu í Borgarfirði hafði verið byggt á þennan hátt árið 1895 og Barónsfjósið í Reykjavík var steypt 1899. Sama ár voru tvö fyrstu íbúðarhúsin í Reykjavík steypt. (Sjá Ingjaldshóll)

Að Ingjaldshóli var löngum þriðja stærsta kirkja landsins, því hvergi var meira þéttbýli, þegar tómthús og þurrabúðir risu þar í tengslum við útræði á Snæfellsnesi auk allra vermannanna, sem komu á vertíðir. Eldri kirkjur stóðu í kirkjugarðinum en núverandi kirkja var byggð utan hans. Forvígismaður kirkjubyggingarinnar 1903 var Lárus Skúlason, formaður á Hellissandi. Einn Völundarbræðra, Jón Sveinsson, byggingarmeistari teiknaði hana. Hann hafði m.a. byggt Miðbæjarskólann í Reykjavík. Albert Jónsson, múr- og steinsmiður, tók að sér verkefnið. Þrátt fyrir reynsluleysi í byggingu steinsteyptra húsa, var svo vel vandað til verksins, að steypan hefur ekki látið á sjá.

Árið 1914 var ráðizt í endurbætur. Rögnvaldur Ólafsson var þá húsameistari ríkisins. Eftir teikningum og fyrirsögn hans var turninn hækkaður, núverandi söngloft var byggt, tréverki var breytt, hvelfingin var gerð bogadregin og klædd með panel. Beggja vegna kórsins eru steinsteyptar súlur, sem tengjast með boga. Þessi bogi var ekki steyptur í mótum, heldur handgerður. Súlurnar og boginn voru ekki einungis til skrauts. Neðst í súlunum voru kolaofnar til upphitunar og reykurinn steig upp um þær og bogann og út um skorstein. Þessi ofnar voru aflagðir og rafhitun tekin upp

Þórarinn B. Þorláksson málaði eftirmynd af altaristöflunni í Dómkirkjunni í Reykjavík. Þessa upprisumynd málaði hann í skýrari litum en fyrirmyndin og veglegur rammi er utan um verkið. Önnur tveggja annarra og eldri altaristaflna, sem eru varðveittar í kirkjunni, er íburðarmikið verk með guðspjallamönnunum fjórum. Hún er gjöf frá Peter Nocolai Winge, kaupmanni í Rifi árið 1709. Hún ber merki barokktímans, sem var þá að víkja fyrir fínlegri dráttum rókókóstílsins. Hún var lánuð Brimilsvallakirkju um tíma. Þessi tafla var sett upp í stað hinnar eldri, sem var mun minni og frumstæðari. Aldur hennar er ekki kunnur, en hún mun hafa hangið í kirkjunni, sem var byggð 1696. Matthías Þórðarson, fornminjavörður, lýsir henni í úttekt árið 1911: „Gömul altaristafla með tveimur englum, sól og tungli o.fl.. Líklegt þykir, að veglegri rammi hafi áður verið utan um þessa mynd, sem til stóð að farga, en tókst sem betur fór að bjarga.

Leifur Breiðfjörð gerði tvö steind listaverk í gluggum kórsins. Í kirkjunni er skýrnarskál frá árinu 1894. Fóturinn er yngri. Þar er ennig skýrnarfontur sem Ríkhafður Jónsson skar út skömmu áður en hann dó. Prédikunarstóllinn hefur ekki haldið upprunalegri mynd eins og hann var í endurbyggðri kirkju árið 1782. Honum var lýst á þann veg, að væri skreyttur haglega skornum myndum af postulunum, en einhvern veginn hurfu þessar myndir af honum og eru nú varðveittar í Þjóðminjasafni. Nú er stóllinn hvítmálaður og sviplítill. Kirkjan er björt og hvítmáluð. Hvelfingin er dökkblá og sett gylltum stjörnum og rautt teppi er á gólfi. Kirkjubekkirnir eru gerðir úr fallegum viði. Á hvorri hlið eru þrír stórir, bogadregnir járngluggar með 36 rúðum.

Safnaðarheimilið var tekið í notkun skömmu fyrir aldamótin 2000. Það sést ekki utan frá og inngangur niður í það er í forkirkju. Það opnast um dyr vestur úr hólnum. Gömul sögn segir frá vetursetu Kristófers Kólumbusar á Ingjaldshóli árið 1477. Hann er sagður hafa komið til Rifs til að kynna sér Vínlandsferðir Íslendinga. Á stóru málverki eftir Áka Gränz í safnaðarheimilinu sést hann skoða kort ásamt presti staðarins með kirkjuna og Jökulinn í baksýn.

Öldum sama var Ingjaldshóll höfuðból, sem getið er í Víglundarsögu og Bárðarsögu Snæfellsáss. Þar var snemma kirkjustaður, lögskipaður þingstaður, gapastokkur skammt frá kirkjudyrum og þar með aftökustaður. Rifsós eða Rifshöfn heyrði undir staðinn. Þar var Björn Þorleifsson, hirðstjóri, veginn í bardaga við enska kaupmenn 1467. Sóknarkirkju er ekki getið fyrr en árið 1317 en þar var bænhús áður. Í þjóðsögusafni Jóns Árnasonar er tilurðar kirkjunnar getið og jafnframt, að hún hafi skemmzt í fárviðri árið 1694 og verið byggð upp aftur tveimur árum síðar samkvæmt konungsbréfi. Þá kostaði uppbyggingin 400 ríkisdali og allar kirkjur í Skálholtsbiskupsdæmi lögðust á árarnar. Þessi kirkja tók a.m.k. 360 manns í sæti. Fjöldi fólks kom á vetrarvertíðir undir Jökli, þannig að kirkjan varð að vera stór. Bjarni Pálsson og Eggert Ólafsson sáu þessa kirkju á ferðum sínum árið 1754 og sögðu hana ganga næst dómkirkjunni í Reykjavík og á Hólum að stærð. Þá hékk þar líklega uppi elzta altaristaflan. Þá var þar til klukka með ártalinu 1693, sem er horfin með öllu, en var geymd í Ólafsvíkurkirkju samkvæmt skrám Matthíasar Þórðarsonar frá 1911. Guðmundur Sigurðsson, sýslumaður og tengdafaðir Eggerts Ólafssonar, gaf nýja klukku með ártalinu 1743, sem er enn þá í kirkjunni ásamt annarri frá 1735.

Árið 1782 var kirkjan orðin úr sér gengin. Ólafur Björnsson, bíldhöggvari á Munaðarhóli, var fenginn til að byggja nýja. Samkvæmt lýsingum dansks kaupmanns í Ólafsvík var hún úr timbri og tjörguð að utan. Dyr voru á vesturgafli og aðrar á norðurhlið.Loft náði inn að prédikunarstól, sem var u.þ.b. í miðri kirkju Í kórnum voru fjórir bekkir til allra hliða fyrir karlmenn. Smágluggar voru við altarið og við prédikunarstólinn og nokkrar rúður á þakinu. Velútskornar tréhurðir voru fyrirtveimur innstu bekkjum og eins fyrir kórnum. Prédikunarstóllinn var skreyttur útskornum myndum af postulunum og altaristaflan var mynd af kvöldmáltíðinni, velmáluð og gjöf þýzkra kaupmanna (ruglað saman við töfluna, sem Winge kaupmaður gaf 1709). Þessi kirkja var hin þriðja stærsta í landinu. Þessi kirkja stóð í kirkjugarðinum, þar sem sjá má rústir hennar, þar til steinkirkjan reis árið 1903.

Meðal minnisvarða í kirkjugarðinum eru legsteinar Magnúsar Jónssonar, lögmanns, sem lézt árið 1694, og Guðmundar Sigurðssonar, sýslumanns, frá 1753. Eggert Ólafsson, tengdasonur hans, lét gera steininn. Þessir legsteinar hafa nú verið fluttir inn í safnaðarheimilið. Norðan garðsins, nær kirkjunni, stendur nýlegur minnisvarði um hjónin Eggert Ólafsson og Ingibjörgu Guðmundsdóttur, tveir mannhæðarháir steinar, sem Páll Guðmundsson á Húsafelli mótaði myndir í. Steinarnir standa þétt saman og í gegnum glufuna sést yfir Breiðafjörð upp á Rauðasand, þar sem Eggert ýtti frá kaldri Skor.

Í túninu skammt austan kirkjunnar er svonefndur Víglundarsteinn, sem er að mestu horfinn í jörðu. Hettusteinn séstst af hólnum. Hetta tröllskessa fleygði honum í átt að kirkjunni en hitti ekki.

Myndasafn

Í grennd

Ingjaldshóll
Ingjaldshóll var bæði höfuðból og þingstaður. Aðsetur lögmanna og sýslumanna og umboðsmanna bæði Helgafellsklausturs  og Danakonungs. Núverandi Rifsl…
Kirkjur á Vesturlandi
Flestar kirkjur í landshlutanum Akrakirkja Akraneskirkja Álftaneskirkja Álftartungukirkja Bæjarkirkja Bjarnarhafn…
Sögustaðir Vesturlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Borgarfjörður Akrafjall Akrakirkja Akranes Akraneskirkja …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )