Hruni er bær, kirkjustaður og prestssetur í Hrunamannahreppi. Kirkjan, sem þar stendur var byggð árið 1865.
Þorvaldur Gissurarson (1155-1235), sonur Gissurar Hallssonar í Haukadal, bjó í Hruna 1182-1225. Hann var goðorðsmaður, kænn höfðingi og prestvígður.
Hann stofnaði klaustrið í Viðey 1224 og varð þar kanoki. Hann lézt í klaustrini árið eftir stofnun þess. Gissur Þorvaldsson (1208-1268), sonur hans, tók við völdum eftir að Þorvaldur gekk í klaustur og varð voldugasti maður í Sunnlendingafjórðungi. Hann var friðsamur maður að eðlisfari en atvikin höguðu lífi hans þannig, að hann dróst inn í harðvítugar deilur Sturlungaaldar. Hann gerðist liðsmaður Hákonar gamla, Noregskonungs, og síðar jarl hans á Íslandi frá 1258 til æviloka. Séra Jón Héðinsson (†1543) var prestur í Hruna 1514-1542, þegar hann hætti prestsstörfum, því að hann vildi ekki láta af katólskum sið. Hann var lengi ráðsmaður í Skálholti ásamt prestsstörfunum.
Árið 1539 kom Diðrik frá Mynden til Skálholts með fylgdarliði. Hann hafði uppi ill orð um Ögmund Pálsson biskup og gerði honum allt til gremju. Séra Jón safnaði þá liði og drap Diðrik og alla menn hans. Tveir hinir síðustu þeirra, höfðu orðið eftir í Odda að skipun Diðriks og áttu að bíða hans þar. Séra Jón sendi þeim boð frá Diðrik um að koma í Hruna, þar sem hann og vopnaðir Árnesingar drápu þá.
Guðmundur Kjartansson (1909-1972), jarðfræðingur, fæddist í Hruna. Hann rannsakaði m.a. Heklu, Hekluhraun og móbergsfjöll og setti fram kenningu um sköpun þeirra, stapakenninguna. Víða rannsakaði hann jökulminjar og vann að útgáfu jarðfræðikorta. Hann flokkaði íslenzk fallvötn og skrifaði margt um fag sitt.
HRUNAKIRKJA
Hrunakirkja er í Hrunaprestakalli í Árnesprófastsdæmi. Hún var byggð 1865 úr járnvörðu timbri og tekur 200 manns í sæti. Katólskar kirkjur á staðnum voru helgaðar Maríu guðsmóður, Tómasi erkibiskupi, Þorláki helga og heilagri Katrínu. Tungufellskirkja hefur verið útkirkja síðan 1819 og í Hrepphólum síðan 1974. Altaristaflan er meðal margra góðra gripa kirkjunnar.
Sögur segja, að kirkjan hafi staðið uppi á klettahæð, sem nefnist Hruni, og þar sé hægt að sjá Hrunakarlinn í klettunum. Á þessum tíma var þar prestur, sem hélt dansleik með sóknarbörnunum í kirkjunni á jólanótt með drykkju, spilum og annarri ósæmilegri hegðan. Eitt sinn stóð dansleikurinn óvenju lengi og kölski kom til skjalanna. Hann gretti sig framan í kirkjugesti og dró kirkjuna með öllum, sem voru í henni, niður í undirdjúpin. Indriði Einarsson samdi leikritið „Dansinn í Hruna“ upp úr þessari sögu.
Hátt lætur í Hruna
hirðir þann bruna
svo skal dansinn duna
að drengir megi það muna
Enn er hún Una
og enn er hún UnaHvað er betra enn að Ferðast og Fræðast !!!