Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Hraunhafnartangi

Hraunhafnartangi á Melrakkasléttu er næstnyrzti tangi landsins (66°32″3’N) 3 km sunnan   heimskautsbaugs. Vitinn, sem stóð á Rifstanga (nyrzta tanga landsins), var fluttur þangað árið 1945. Hraunhafnarvatn, sem er gott veiðivatn, er sunnan Hraunhafnartanga. Hraunhöfn var þekkt höfn og skipalægi á söguöld og nöfn margra fornkappa eru tengd henni.

Fóstbræðra saga segir frá vígi Þorgeirs Hávarssonar eftir að hann banaði fjórtán. Grjóthrúga á staðnum er sögð vera dys hans. Hraunhafnar er getið í Gunnlaugs sögu, Reykdæla sögu og Íslendingabók. Landnáma segir frá Arngeiri, sem nam Sléttu milli Hávararlóns og Sveinungsvíkur. Þorgils og Oddur voru synir hans og dóttirin Þuríður. Arngeir og Þorgils fóru eitt sinn í smalamennsku og urðu fyrir árás bjarndýrs, sem drap þá báða. Oddur kom að vígvellinum, drap björninn og flutti hann heim og át. Hann varð hamrammur af átinu og erfiður viðureignar. Hann gekk frá Hraunhöfn að kvöldi og kom morguninn eftir í Þjórsárdal til að liðsinna systur sinni á Steinastöðum, sem Þjórsárdælingar ætluðu að grýta í hel fyrir tröllskap.

Bærinn Harðbakur er upp af Hraunhafnartanga. Hann getur hafa heitið Hraunhöfn áður. Finnur Jónsson (1894-1951), alþingismaður og ráðherra, fæddist þar. Meyjarþúfa er lítill hóll með priki á toppi 200-300 m sunnan þjóðvegarins milli Harðbaks og Hraunhafnartanga. Í tengslum við hana er sagt, að plága hafi herjað á Sléttubúa og allir andast nema ein kona og einn karl, annað á Austur-Sléttu og hitt á Vestur-Sléttu. Þau lögðu bæði land undir fót til að finna annað fólk og hittust á Meyjarþúfu, þar sem ný kynslóð kviknaði.

Bæklingar um ferða- gönguleiðir í Kelduhverfi, þjóðgarðinum og á Melrakkasléttu fást í aðalmiðstöð þjóðgarðsins í Ásbyrgi.

Myndasafn

Í grennd

Raufarhöfn
Raufarhöfn er kauptún á austanverðri Melrakkasléttu og hefur verið löggiltur verzlunarstaður frá 1836. Útgerð og fiskvinnsla eru uppistaða atvinnulífs…
Sögustaðir Norðurland
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Ábæjarkirkja Aðaldalur Akureyrarflugvöllur Akureyri Innbærinn Árbæjarkirkja Skaga…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )