Holtskirkja er í Holtsprestakalli í Ísafjarðarprófastsdæmi. Holt er fornt höfuðból, kirkjustaður og í Önundarfirði. Katólskar kirkjur þar voru helgaðar heilögum Lárentíusi. Útkirkjur eru á Kirkjubóli, í Valþjófsdal og á Flateyri. Kirkjan, sem nú stendur í Holti, var byggð 1869. Hún er úr timbri og árið 1937 fór fram gagnger viðgerð á henni. Þá var m.a. steypt utan um hana alla. Miklar endurbætur fóru fram fyrir aldarafmæli hennar 1969. Þá var byggð forkirkja úr timbri.
Meðal margra góðra gripa kirkjunnar eru tveir voldugir koparstjakar með áletruninni: „Sera Sveinn Simonsson Anno salutis 1604”, sem Sveinn Símonarson, faðir Brynjólfs biskups, gaf kirkjunni. Hann gaf kirkjunni líka fagurlega útskorinn skírnarsá. Hann var fluttur inn frá Þýzkalandi. Í kirkjunni eru nokkrar grafskriftir, merkust er sú, sem var gerð í minningu Jóns Sigurðssonar. Ágúst Sigmundsson, myndskeri, skar út skírnarsáinn. Þar að auki eru tveir gamlir ljósahjálmar og klukkur í kirkjunni. Altaristaflan er máluð eftirmynd á striga eftir frummynd Carl Bloch. Tréskurðarmynd úr eik af heilagri guðsmóður og Önnu, móður hennar, með guðsbarnið prýðir kirkjuna. Hún er líklega gerð í Lübeck í Þýzkalandi um eða eftir 1500. Paxspjaldið í kirkjunni er líklega úr rostungstönn.
Svo segir, að eitt sinn hafi Oddur Einarsson, Skálholtsbiskup, komið við í Holti á yfirreið. Nefndi hann við Ragnheiði, konu séra Sveins Símonarsonar, að hann grunaði, að einhver sona þeirra hjóna yrði biskup eftir sig. Oddur bað svo um að fá að sjá drengina Að því loknu sagði hann, að þeir væru ekki biskupsefni. Þá lagði hann hönd sína fyrir neðan brjóst Ragnheiðar og sagði, að þar væri drengstauli, sem yrði biskup. Hann reyndist sannspár, því skömmu síðar ól Ragnheiður dreng, sem var skírður Brynjólfur (1605-75), sem síðar varð Skálholtsbiskup. Á 300 ára ártíð hans, 1975, var honum reistur minnisvarði í Holti. Brynjólfur safnaði m.a. gömlum handritum. Hann gaf Friðriki III, Danakonungi, eitt fegursta og frægasta skinnhandrit, sem fundizt hefur á Íslandi, Flateyjarbók. Mörg handrit, sem Brynjólfur skrifaði sjálfur, hafa varðveitzt.