Hoffell er stórbýli í Nesjum. Landnáma segir, að Auðun hinn rauði hafi keypt þar land af Hrollaugi og m.a. reist þar hof. Meðal verðmætra steina, sem finnast á landareigninni, eru marmari, silfurberg, ópalar og jaspís. Stærsti silfurbergssteinninn, sem fannst þar, vóg 175 kg. Hann var sendur til Reykjavíkur og þaðan var hann seldur til Þýzkalands á háu verði.
Talsvert er um ríólít í fjöllum og flest bendir til þess, að þetta umhverfi hafi verið megineldstöð fyrrum. Námavinnsla var stunduð í Hoffellslandi fyrir tilstuðlan Guðmundar Hoffells (1875-1945).
Jón Helgason, sýslumaður, bjó á Hoffelli í lok 18. aldar. Hann fetaði ekki troðnar slóðir og átti í miklum útistöðum við marga. Hann var dæmdur í sektir og frá embætti að lokum. Afkomendur hans hafa búið að Hoffelli síðan.