Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Hof í Öræfum

Hof er margbýli í Öræfum. Þar var kirkja helguð heilögum Klemensi í katólskum sið og útkirkja frá   Sandfelli allt til 1970, þegar Hof var lagt til Kálfafellsstaðar í Suðursveit. Torfkirkjan, sem varðveitt er að Hofi, er að stofni frá 1884. Veggir hennar eru hlaðnir úr grjóti og á henni er helluþak, þakið torfi. Þjóðminjasafnið fékk hana til eignar með því skilyrði, að hún yrði endurbyggð (1953-54) og hún yrði áfram sóknarkirkja. Hún var endurvígð 1954.

Jón Jakobsson, bóndi að Klömbrum undir Eyjafjöllum, endurbyggði kirkjuna 1847 og smíðaði altarið og líklega hefur Jón Guðmundsson í Lækjarhúsum á Hofi smíðað hurðarlæsinguna sama árið. Í kirkjunni eru danskir stjakar úr tini frá 16. eða 17. öld. Ólafur Túbals, listmálari, málaði altaristöfluna. Lækir úr Hofsfjalli voru virkjaðir til ljósa. Ferðaþjónusta er rekin á Hofsbæjunum og einnig í félagsheimilinu á sumrin.

Gröf er eyðibýli skammt norðvestan Hofs. Bærinn var einn margra, sem tók af í Öræfagosinu 1362 og týndist. Árið 1954 fundust rústir hans og voru rannsakaðar. Þarna fundust rústir bæjar, fjóss, hlöðu og sofnhúss, sem gáfu hugmynd um þróun bygginga frá söguöld. Bæði sofnhús og bæjargöng eru merkileg og líkjast helzt bæjarrústum á Orkneyjum. Meðal þess, sem fannst, voru nokkrir smámunir og fjögurra raða, heimaræktað bygg (Hordeum vulgare).

Háalda milli Sandfells og Hofs myndaðist í hlaupinu 1727. Í henni er geysistórt jökulker (hver) eftir bráðnun risastórs jaka. Háalda var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975.

Myndasafn

Í grennd

Sandfell
Sandfell Öræfum Sandfell er eyðibýli í Öræfum. Þar var kirkjustaður og prestssetur. Ekkja Ásbjarnar Heyangurs-   Öræfajökli Bjarnasonar, Þorgerður, …
Þjóðgarðurinn í Skaftafelli
Þjóðgarðurinn í Skaftafelli (1967, stækkaður 1984 og stækkaður enn 2004) og nágrenni geymir mestu náttúruperlur Íslands. Íslenskir og erlendir ferðal…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )