Hjarðarholt er fyrrum prestsetur og bær í Laxárdal í Dalasýslu. Þar sat prestur fram á 20. öldina en situr nú í Búðardal. Í prestakallinu eru kirkjurnar í Hjarðarholti, í Snóksdal, á Stóra-Vatnshorni og í Kvennabrekku. Katólskar kirkjur í Hjarðarholti voru helgaðar Jóhannesi skírara. Kirkjan, sem nú stendur, var vígð árið 1904, krosskirkja úr járnvörðu timbri með háan ferhyrndan turn. Hún er líklega prófverkefni Rögnvaldar Ólafssonar, sem síðar varð húsameistari ríkisins, og hin minnsta hinna þriggja krosskirkna, sem hann teiknaði. Hún er nú allbreytt að innan. Hún á skírnarsá úr tré, sem Guðmundur Kristjánsson, bóndi og myndskeri á Hörðubóli, gerði. Silfurskálin í honum var gefin kirkjunni árið 1964.
Samkvæmt Laxdælu bjó Ólafur pá á Hjarðarholti og sonur hans, Kjartan, fæddist þar. Víga-Hrappur Sumarliðason bjó þar, þegar bærinn hét Hrappsstaðir. Sá bær lagðist í eyði vegna þess, að Hrappur gekk aftur og eyddi fél og fólki. Þegar Ólafur pá hafði komið sér fyrir þar, hélt Víga-Hrappur uppteknum hætti. Þá lét Ólafur opna haug hans, brenna skrokkinn og dreifa öskunni á haf út.