Gufustöðin í Bjarnarflagi í Mývatnssveit er elsta gufuaflsstöð landsins. Hún var gangsett árið 1969, þegar Laxárvirkjun lét byggja stöðina, en Landsvirkjun eignaðist hana við sameiningu fyrirtækjanna árið 1983. Afl stöðvarinnar er 5 megavött og nýtir hún gufu jarðhitasvæðisins við Námafjall.