Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Guðríðarkirkja

Guðríðarkirkja við Kirkjustétt í Grafarholtssókn er í Grafarvogsprestakalli í Reykjavíkurprófastsdæmi   eystra. Hún var vígð annan sunnudag í aðventu kl. 14:00 2008. Kirkjukór og barnakór sóknarinnar söng við athöfnina undir stjórn Hrannar Helgadóttur og Berglindar Björgúlfsdóttur. Organisti var Hrönn Helgadóttir. Hljómskálakvintettinn, Agnes Amalía Kristjónsdóttir, sópran, og Kristjana Helgadóttir, þverflautuleikari, tóku þátt í athöfninni. Tveir vígslusálmar, sem kirkjunni bárust að gjöf voru frumfluttir. Höfundar þeirra eru Sigurjón Ari Sigurjónsson og Sigríður Guðmarsdóttir, sóknarprestur. Jón Ásgeirsson, tónskáld, gerði lag við fyrri sálminn og gaf það í vígslugjöf. Athöfnin hófst með kirkjugöngu biskupa, presta og djákna Reykjavíkurprófastsdæmis eystra með helga gripi kirkjunnar. Hátíðarkaffi var síðan í Gullhömrum.

Merki Guðríðarkirkju hannaði Björg Vilhjálmsdóttir, grafískur hönnuður, Það er vínviðarteinungur, sem myndar kross. Teinungsfléttan vísar til fornrar íslenskrar útskurðarlistar. Vínviðurinn er Kriststákn í trúarhefðinni (Jóh.15:1), en minnir líka á sögu Guðríðar Þorbjarnardóttur, sem kirkjan heitir eftir og fund Vinlands.

Kirkjan heitir eftir Guðríði Þorbjarnardóttur, landkönnuði, pílagrími og einsetukonu á elleftu öld. Nafngiftin er í anda götuheita og stofnana í Grafarholti, sem flest bera nöfn tengd fyrstu kristni og landafundum, enda byrjað á hverfinu, þegar 1000 ár voru liðin frá kristnitöku og fundi Vínlands. Nöfn herbergja og sala tengjast sögu Guðríðar, en garðarnir tveir bera nöfn fornra helgikvæða, Geisla (12. öld) og Lilju (14. öld).

Ákveðið var að leita nýrra leiða við byggingu Guðríðarkirkju, sem tryggði söfnuðinum fagurt guðshús þar sem jafnframt væri gætt mikillar hagkvæmni.

Grafarholtssókn var stofnuð 22. október 2003 og var dr. Sigríður Guðmarsdóttir skipuð fyrsti prestur Grafarholtsprestakalls tæpu ári síðar. Í Grafarholti og Úlfarsfelli búa nú 5300 manns (2008) og ná sóknarmörk í norðri til bæjarmarka Mosfellsbæjar. Núverandi formaður sóknarnefndar er Níels Árni Lund.

Snemma var farið að huga að því að söfnuðurinn fengi þak yfir höfuðið og guðshús risi í Grafarholti. Undirbúningsnefnd um kirkjubyggingu hóf störf 2005 og síðan byggingarnefnd frá árinu 2006. Formaður beggja nefnda var Stefán Ragnar Hjálmarsson, byggingatæknifræðingur, en auk hans störfuðu í byggingarnefndinni sóknarpresturinn og Hreinn Ólafsson tæknifræðingur. Herra Karl Sigurbjörnsson, biskup, tók fyrsta skóflustunguna að nýju kirkjunni miðvikudaginn 8. ágúst 2007.

Kirkjan hefur reis með undraverðum hraða og mun það teljast einsdæmi að vígð sé kirkja fyrir aðeins fimm ára gamlan söfnuð í Þjóðkirkjunni.

Við byggingu kirkjunnar var ákveðið að fara nýjar leiðir að því markmiði, að söfnuðurinn fengi fagra kirkju, en um leið að gætt yrði hagkvæmni og lítillar skuldasöfnunar. Kirkjuráð með biskup Íslands í broddi fylkingar hafði forgöngu um samstarf við Grafarholtssókn um kirkjubygginguna og er það í fyrsta sinn, sem yfirstjórn Þjóðkirkjunnar og einstök sókn vinna svo náið saman að kirkjubyggingu. Hefur Jöfnunarsjóður sókna styrkt kirkjubygginguna myndarlega.

Guðríðarkirkja var fyrsta kirkja á Íslandi sem byggð var samkvæmt lokuðu alútboði. Fjórir verktakar tóku þátt í því og varð Sveinbjörn Sigurðsson hf. hlutskarpastur. Arkitektar kirkjunnar voru Þórður Þorvaldsson og Guðrún Ingvarsdóttir hjá Arkþingi ehf. Með Arkþingi ehf. unnu Landhönnun, Almenna Verkfræðistofan, Raftákn og Trivium ráðgjöf að gerð tillögunnar. Yfirsmiður kirkjunnar var Finnur Jóhannsson.

Við hönnun kirkjunnar var farin sú óvenjulega leið að ramma kirkjuskip og safnaðarsali inn með tveimur görðum. Austurgarðurinn myndar því eins konar þrívíða altaristöflu handan við altarið sem tekur breytingum í takt við árstíðirnar og veitir jafnframt birtu og dýpt inn í kirkjurýmið. Garðana hannaði Hermann Ólafsson hjá Landhönnun með aðstoð Péturs Jónssonar og Höllu Hrundar Pétursdóttur hjá Landark. Reynir Sýrusson húsgagnahönnuður hannaði flestar innréttingar hússins í samráði við arkitekta þess. Stólar, altari, grátur og sálmatafla voru smíðuð hjá Beyki ehf. Altaristaflan er utanhúss og sést gegnum risastóran glugga. Innviðir kirkjunnar eru úr birki, sem gefur henni hlýtt og létt yfirbragð.

Myndasafn

Í grennd

Kirkjur á Suðvesturlandi
Það er erfitt að draga skörp landfræðileg skil milli kirkna, kirkjustaða og sögu kristninnar á milli landshluta. Á þessum vef fer skiptingin ekki efti…
Sögustaðir Höfuðborgarsvæðinu
Ýmsir staðir tengdir sögu svæðisins Akurey Alþingishúsið Bessastaðakirkja Bessastaðir – Álftanes …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )