Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Gönguleiðir við Mývatn

Námaskarð

Göngluleiðir eru margar og fjölbreyttar við Mývatn. Hér fylgja stuttar lýsingar á helzt leiðum, sem eru merktar. Upplýsingarnar hér eru byggðar á bæklingum heimamanna.

Vindbelgjarfjall
Leiðin byrjar við Vagnbrekku og liggur um sléttlendi fyrsta hálftiímann að fjallsrótum. Leiðin upp fjallið tekur u.þ.b. annan hálftíma og er fremur brött á köflum en er engum sæmilega hraustum til trafala. Útsýnið af Vindbelgjarfjalli er frábært og kemur á óvart.

Skútustaðagígar
Lengri hringleiðin liggur meðfram Stakhólstjörn og tekur u.þ.b. eina klukkustund. Styttri hringurinn, gegnum rauða hliðið að Hótel Mývatni tekur u.þ.b. 20 mínútur. Báðir hringirnir eru auðveldir og gaman að fylgjast með fuglalífinu á leiðinni.

Kálfaströnd
Göngluleiðin hefst við hliðið að Kálfaströnd og liggur að Klösum (Strípum) og til baka. Þetta er létt leið og oft má sjá litlar bleikjur skjótast um í vatninu á leiðinni.

Dimmuborgir
Gönguleiðirnar í Dimmuborgum eru nokkrar og mislangar. Þær eru merktar með litum og kort með leiðunum fæst hjá Gestastofu í Reykjahlíðarþorpi á sumrin eða (oftast á sumrin) í plastkassa við aðalinngang svæðisins. Litli hringur er næstur aðalinngangi og tekur u.þ.b. 15-20 mínútur. Stóri hringur nær lengra inn í Borgirnar og tekur u.þ.b. 30-40 mínútur. Kirkjuhringur getur tekið rúmlega klukkustund, eftir því, hvaða leið er valin.

Stóragjá – Grjótagjá – Hverfjall – Dimmuborgir
Þessi leið hefst við vegamótin við Reykjahlíðarþorpið og tekur 2-3 klukkustundir. Hún liggur fyrst um vel gróið land og síðan um rofið land. Frá Grjótagjá er fyrst gengið um sendið land og hraun að Hverfjalli norðvestanverðu, þar sem aflíðandi stígur liggur upp á brún og síðan allan hringinn, ef áhugi er fyrir hendi og geta leyfir. Leiðin niður eða upp að sunnanverðu er mun brattari. Við skulum hafa í huga, að þetta eru einu leiðirnar upp og niður Hverfjall, sem leyft er að nota. Leiðin frá Hverfjalli að bílastæðinu á Borgarási handan Dimmuborga liggur að hluta um Borgirnar.

Varmholtsgjá
Á leiðinni milli Stórugjár og Grjótagjár er merkt hringleið um svæði, sem er kallað Hraun. Það er mjög gróið svæði, einkum birki, og gaman að skoða flóruna á leiðinni. Leiðin er falleg og skjólgóð og tekur u.þ.b. klukkutíma frá Stórugjá.

Norðurhringurinn
Norðurhringurinn, norðan Mývatns, tekur 2-3 klukkutíma. Hann hefst við þjóðveginn vestan Reykjahlíðarþorpsins og liggur með vatnsbakkanum. Þar sjást greinileg áhrif vatnsins á gróðurinn. Vestan Slútness liggur leiðin yfir hraunið að Fagraneshólum og síðan yfir þjóðveginn, þar sem er líka hægt að hefja gönguna. Frá Fagraneshólum er haldið eftir gamla þjóðveginum til Reykjahlíðar. Þetta er auðveld ganga, sem gefur kost á fuglaskoðun í leiðinni.

Námafjall
Hverasvæðið austan Námafjalls er kallað Hverir eða Hverarönd. Það er eitthvert stærsta brennisteinssvæði landsins. Þaðan liggur stígur upp fjallshlíðina að Námaskarði og þaðan niður þjóðveginn til baka. Inni á hverasvæðinu er full ástæða til að fara varlega, því að kæruleysi hefur valdið alvarlegum slysum.

Hlíðarheiðarhringur
Gangan hefst frá tjaldstæðinu Hlíð að Eldá og í áttina að Hlíðarfjalli. Þar er allbrattur, merktur stígur upp fjallið. Þessi leið er ekki erfið og tekur 30-40 mínútur hvora leið. Frá Hlíðarfjalli liggur leiðin austur í Brunaborgir, sem er þyrping gjallgíga, og síðan aftur til vesturs yfir hæðirnar að barnaskólanum, þar sem göngunni lýkur. Þetta er falleg og friðsæl leið og vænta má margra fuglategunda á leiðinni.

Leirhnjúkur
Leiðin frá bílastæðinu ofan við Kröfluvirkjun að Leirhnjúk er flatlend og auðveld. Hún liggur um hverasvæði norðaustan í fjallinu og bak við það um furðuveröld gíga og hrauns frá 1984. Þaðan er haldið upp á hæstu bungu Leirhnjúks, niður suðvesturhlíðina og aftur að bílastæðinu. Þessi ganga tekur 45-60 mínútur.

Kröfluleiðin
Þessi leið hefst við barnaskólann og liggur að Leirhnjúki suðvestanverðum um gíga- og hraunsvæði frá 1984. Þaðan liggur leiðin um hraun og mela að Hlíðarfjalli, á bökkum Eldár og niður að Gestastofu aftur. Þessi ganga tekur 3-4 klst. og er fremur auðveld.

Dalfjallsleið
Merktur göngustígur liggur frá þjóðveginum í Námaskarði að Leirhnjúki eftir Dalfjalli endilöngu með góðu útsýni alla leið. Haldið er yfir hraunbreiðu og upp stórt misgengi alla leið að bílastæðinu við Leirhnjúk. Gangan tekur 2-3 klst. en er alls ekki erfið. Gígar og misgengi í Dalfjalli gefa góða hugmynd um eldvirkni og jarðfræði svæðisins.

Víti
Stutt gönguleið liggur á börmum Vítis, sem varð til í upphafi Mývatnselda árið 1724. Á leiðinni er hverasvæði, þar sem aðgátar er þörf. Göngutíminn á þessari auðveldu leið er 20-30 mínútur.

Sannir göngumenn skilja aðeins sporin sín eftir og taka aðeins með sér minningarnar!

Myndasafn

Í grennd

Dimmuborgir
Dimmuborgir eru eitthvert vinsælasta og merkilegasta náttúruundrið við Mývatn. Mývetningar hafa gert  það að bústað Grýlu, leppalúða og jólasveinanna.…
Mývatn, Silungsveiði
Mývatn er 36,5 km². Það er í 277 m.y.s., mjög vogskorið og með rúmlega 40 eyjum og hólmum. Mesta náttúrulegt dýpi er 4,5 m og víða er mun grynnra. Mun…
Sögustaðir Norðurland
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Ábæjarkirkja Aðaldalur Akureyrarflugvöllur Akureyri Innbærinn Árbæjarkirkja Skaga…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )