Grímsnesi
801 Selfossi
Sími:
18 holur par 71
Jörðin Kiðjaberg er fornfrægt óðalsbýli og var um langt skeið sýslumannssetur Árnesinga, en árið 1989 keypti Meistarafélag húsasmiða í Reykjavík jörðina til orlofsaðstöðu fyrir félagsmenn.
Kiðjaberg er um 500 ha. og afmarkast af Hvítá og Hestvatni annars vegar og jörðunum Arnarbæli, Gelti og Hesti hins vegar. Á jörðinni stendur gamla sýslumannshúsið byggt 1869, en það er elsta timburhús í sveit á Suðurlandi.
Árið 1990 var ráðist í að endurbyggja húsið í upprunalegri mynd, en það var orðið býsna hrörlegt, enda 120 ára. Endurbygging þess tókst mjög vel og nú stendur það gestum til sýnis sem verðugur minnisvarði um höfðingjasetur 19. aldar.
Við eigendaskiptin var landið tekið til skipulags og gert ráð fyrir allt að 150 sumarhúsum. Ríkulega er séð fyrir opnum svæðum til leikja og skógræktar og girt var af allstórt svæði til hrossageymslu. Ýmissa kosta er völ til afþreyingar, m.a. laxveiði í Hvítá, silungsveiði og siglingar á Hestvatni og ágæt sundlaug er að Hraunborgum í næsta nágrenni. Þá var útbúið tjaldsvæði við Hestvatn til afnota fyrir kylfinga og gesti Kiðjabergs.
Strax árið 1989 var hafist handa við gerð golfvallar og var Hannes Þorsteinsson golfvallahönnuður fenginn til að teikna hann.
Gert er ráð fyrir 18 holu velli og eru 9 holur nú fullgerðar. Liggja þær í einkar fjölbreyttu landslagi á bökkum Hvítár. Völlurinn er par 70, 5448 m af gulum teigum, en 4784 m af rauðum. Allgott æfingasvæði er við völlinn sem og fjögurra holu par 3 völlur opinn öllum gjaldfrjálst til æfinga. Við völlinn er 120 fm. golfskáli með snyrtingum og veitingasölu.