Hæsti foss landsins, Glymur, er í Botnsá í Hvalfirði. Botnsá er afrennsli Hvalvatns niður í Botnsvog. Áin steypist niður í stutt en mjög djúpt gljúfur, sem gerir fossinn næstum 200 m háan. Botnsá skiptir á milli Kjósar- og Borgarfjarðarsýslna. Stuttur vogsbotninn er víða kjarri vaxinn, umhverfið mjög sumarfagurt og hentugt til útivistar.
Það er engum ofverk að ganga upp að Glym, sem þó sést hvergi allur, nema vazlað sé í ánni upp gljúfrið. Það er þó hvorki á allra færi né hættulaust vegna grjóthruns, þannig að auðveldara og hættuminna er að skoða hluta fossins frá gljúfurbörmunum. Alvarlegt slys varð vegna grjóthruns á hóp fólks í ferð um gljúfrið.
Ein af skemmtilegri þjóðsögum landsins, „Rauðhöfði“, snertir þetta svæði og gefur skýringar á nafngiftum þar.