Sýning Hitaveitu Suðurnesja um jarðfræði, jarðhita og vinnslu orku úr iðrum jarðar við orkuverið í Svartsengi.
Ísland býður einstök skilyrði til að sjá og rannsaka flest, sem varðar jarðfræði, eldvirkni og jarðhita, því landið er jarðfræðilega ungt og enn þá í mótun. Landið er eins og gluggi inn í fortíð og framtíð þessarar þróunar, þannig að með lestri jarðlaga má leiða líkur að því, sem koma skal. Hérlendis eru stærstu jöklar og mestu jökulsár Evrópu, mestu há- og lághitasvæðin, óvenjulega mikil eld- og jarðskjálftavirkni auk stórbrotinnar náttúru.
Leikir sem lærðir njóta sýningarinnar í Gjánni, sem leiðir gesti um almenna jarðfræði jarðarinnar, jarðfræði landsins, Reykjaness og Svartsengis og skýrir tengsl skyldra fræðigreina með forrannsóknum og eftirliti á háhitasvæðum. Jarðboranir á slíkum svæðum eru einnig skýrðar og farið í gegnum framleiðsluferli rafmagns og hitaveituvatns í orkuverinu í Svartsengi.
Tæknibúnaður sýningarinnar er mjög fullkominn. Unnt er að sýna margar myndir í einu og tengja þær ýmsum hljóðum samtímis. Myndir er m.a. sýndar á 42” plasmaskjám og geymdar á stafrænum MPEG mynd- og hljóðgrunnum. Allar myndir eru með víðómi. Í enda Gjárinnar er stærra sýningartjald í hvelfingu. Það er tengt kvikmyndahljóðkerfi fyrir Dolby-umhverfishljóð, sem eru geymd á stafrænum hljóðkerfum, og ljósum, sem er stýrt í samræmi við viðburðina.
Ár hvert koma þúsundir gesta í Svartsengi til að kynna sér starfsemi Hitaveitu Suðurnesja. Þarna eru á ferðinni ferðamenn, skólafólk, fjölskyldur og sérfræðingar á ýmsum sviðum jarðvísinda. Hitaveitunni þótti tímabært að skapa aðstöðu til gestamóttöku og veita nokkra innsýn í undur íslenzkrar náttúru og aðferðirnar, sem er beitt við breytingu náttúruaflanna í birtu og yl fyrir byggðirnar á Suðurnesjum.
Eldborg, kynningar- og mötuneytishús Hitaveitu Suðurnesja í Svartsengi og Gjáin, eru kjörin vettvangur fyrir þessa kynningu auk kynningar á sögu Hitaveitunnar, Bláa lónsins og samfélagsins á Suðurnesjum.
Gjáin er opin á auglýstum tímum hverju sinni en einnig er unnt að panta sérstaka skoðunartíma.