Garðskagi er nyrzti hluti skagans, sem gengur til norðurs, yzt á Reykjanesi.
Þar var viti fyrst reistur árið 1897, þar sem hafði verið leiðarmerki, varða frá 1847 með með ljóskeri frá 1884.
Árið 1944 var byggður nýr viti. Gamli vitinn var notaður sem fuglaathugunarstaður á vegum Náttúrufræðistofnunar á árunum 1962-1978.
Garðskagi er einn af beztu fuglaskoðunarstöðum Reykjaness og er mikið um farfugla þar vor og haust. Fuglaskoðarar flykkjast þangað til að heilsa upp á vini sína og vonast til að eignast nýja. Gamli Vitinn, sem fremst stendur er vinsælt efni ljósmyndara og í honum má sjá kort af Garðskaga þar sem skipströnd fyrri ára eru merkt og ýmsar upplýsingar eru þar um strandlengjuna.
Greinileg merki um akuryrkju hafa fundizt á Garðskaga, enda dregur hann nafn af Skagagarðinum, sem liggur á milli túnsins á Útskála og Túnsins á Kirkjubóli. Þessi garður var byggður til varnar akrulendinu. Fyrir aldamótin 1900 sást móa fyrir 18 akurreinum, sem voru aðskildar með görðum.