Saga kirkjugarða á Íslandi er jafngömul kristni hérlendis eða nær þúsund ára gömul.
Kirkjugarðurinn í Laugarnesi:
Fyrsti kirkjugarðurinn í Reykjavík var í Laugarnesi. Glögglega sést enn móta fyrir veggjum hans. Ekki mun vissa fyrir, hvenær hann var fyrst upp tekinn.
Tilgátur eru um, að Hallgerður Höskuldsdóttir langbrók sé grafin þar, en talið er að hún hafi verið í Laugarnesi síðustu æviár sín.
Biskupinn yfir Íslandi sat í Laugarnesi í nokkur ár. Síðast var grafið í garðinum árið 1871. Þá voru grafnir þar 6 franskir sjómenn, sem létust úr bólusótt. Þeir lágu í einangrun í gömlu biskupsstofunni í Laugarnesi. Ekki var talið fært að jarða þá „inni í borginni“ vegna hættu á smiti og því horfið að því ráði að grafa þá í gamla kirkjugarðinum í Laugarnesi.
Kirkjan í Laugarnesi var rifin árið 1794 og sameinuð Reykjavíkurkirkju.
Nes við Seltjörn:
Þar var kirkja, en hún var lögð niður og rifin 1797, eða um leið og gamla kirkjan við Aðalstræti. Söfnuðurinn var þá sameinaður Reykjavíkurkirkju.
Engey:
Þar var hálfkirkja. Enn sjá kunnugir móta fyrir kirkjugarðinum þar. Kirkjan var lögð undir Laugarnes um eða eftir 1500.
Breiðholt:
Þar var kirkja og kirkjugarður. Kunnugir geta gert sér grein fyrir hvar hann er.
Hólmur:
Þar var hálfkirkja og kirkjugarður hjá henni. Enn sést móta fyrir veggjum hans á hól austan við bæinn. Hann lagðist niður í Svarta dauða.
Viðeyjarkirkjugarður:
Á árinu 1988 tóku Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma að sér rekstur og viðhald kirkjugarðsins í Viðey.
Gufunes:
Í Gufunesi var kirkja og kirkjugarður. Á sjöunda áratugnum voru jarðneskar leifar þeirra sem þar hvíldu grafnar upp og fluttar og þeim búinn staður í túninu þar hjá.
Kirkjugarðurinn við Aðalstræti (Víkurgarður):
Kirkja mun fljótlega hafa risið við höfðingjasetrið í Reykjavík eftir að kristni var innleidd á Þingvöllum árið 1000.
Talið er að Þormóður sonur Þorkels mána hafi látið reisa kirkju framan við bæ sinn og gert grafreit umhverfis hana. Staður þessi var þar sem nú er horn Aðalstrætis og Kirkjustrætis.
Víkurgarður var síðar nefndur Fógetagarðurinn og entist hann Reykvíkingum í rúm 800 ár. Hann var um 40 x 80 metrar er hætt var að nota hann 1838. Ætla má að jarðneskar leifar 30 kynslóða Reykvíkinga hvíli þar.